Innlent

Talsverð jarðskjálftavirkni á Norðurlandi

Skjálftarnir hafa fundist víða, meðal annars á Húsavík.
Skjálftarnir hafa fundist víða, meðal annars á Húsavík.
Talsverð jarðskjálftavirkni syðst í Eyjafjarðarál úti fyrir Norðurlandi hefur staðið yfir með hléum frá 14. september samkvæmt samantekt Veðurstofu Íslands.

Fram til dagsins í dag hafa mælst fjórir jarðskjálftar yfir 4 að stærð. Tveir þeirra voru þann 19. sept. kl. 07:57 og 08:28 og tveir í gær 20. sept. kl. 09:27 og 19:42.

Þeir hafa allir fundist greinilega á Siglufirði og Ólafsfirði. Sá fyrsti fannst einnig á Sauðárkróki og sá síðasti á Dalvík, Akureyri og Húsavík. Einnig hafa mælst nokkrir skjálftar yfir 3 að stærð en í allt hafa á fimmta hundrað jarðskjálftar verið staðsettir.

Eyjafjarðaráll liggur milli Húsavíkur-Flateyjarmisgengisins og sigdals suður af Kolbeinseyjarhrygg. Húsavíkur-Flateyjarmisgengið er hluti af Tjörnesbrotabeltinu sem brúar bilið milli norðurgosbeltisins og Kolbeinseyjarhryggs.

Jarðskjálftar eru ekki óalgengir á þessu svæði. Skjálftaraðir hliðstæðar þeirri sem nú er í gangi urðu árin 1996 og 2004. Þær stóðu í marga daga og jarðskjálftar yfir 4 að stærð mældust. Upptök skjálftavirkninnar sem nú stendur yfir er ekki á Húsavíkur Flateyjarmisgenginu og ekkert bendir til þess að svo stöddu að hún færist þangað.

Hvorki er hægt að segja fyrir um hve lengi þessi skjálftaröð muni standa yfir né útiloka frekari skjálfta af stærð 4 eða meira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×