Viðskipti innlent

Kaup á evrubréfum ættu að hafa jákvæð áhrif

Kaup Seðlabankans á evrubréfum ríkissjóðs fyrir 57 milljarða króna í síðustu viku ættu að hafa jákvæð áhrif hjá matsfyrirtækjum þegar þau endurskoða næst lánshæfismat Íslands. Sem kunnugt er hefur eitt matsfyrirtækjanna sett lánshæfismatið í ruslflokk og hin tvö eru með það einu haki fyrir ofan ruslflokk með neikvæðum horfum.

Fjallað er um málið í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Þar segir að á föstudaginn kom frétt frá Seðlabankans um að ríkissjóður hafi greitt upp skuldabréf fyrir 57 milljarða króna. Þetta voru skuldabréf með gjalddaga 2011 og 2012 og var því um uppkaup á eftirmarkaði að ræða.

„Þessi uppkaup ættu að styrkja stöðu íslenska ríkisins á erlendum skuldabréfamarkaði og auka líkur á að hægt verði að framlengja það sem eftir stendur af þessum flokkum (um 73 milljarðar) ef þurfa þykir,“ segir í Markaðsfréttunum.

„Þessi uppkaup ættu ennfremur að hafa jákvæð áhrif á matsfyrirtækin þegar þau taka lánshæfismat íslenska ríkisins næst til endurskoðunar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×