Viðskipti innlent

TM: 765 milljónir í hagnað í fyrra

Tryggingamiðstöðin hefur skilað uppgjöri fyrir síðasta ár. Hagnaður af reglulegri starfsemi var 765 milljónir samanborið við 237 milljóna hagnað árið 2009. Heildartekjur voru 11,6 milljarðar en 12,8 milljarðar árið áður. Af öðrum uppgjörstölum má nefna að eigin iðgjöld jukust um átta prósent og voru um tíu milljarðar og eigin tjónakostnaður lækkaði um tólf prósent.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir að í ljósi efnahags- og samkeppnisaðstæðna hafi vöxtur og afkoma félagsins verið mjög góð. „Iðgjaldatekjur jukust á sama tíma og tjónakostnaður lækkaði umtalsvert. Afkoma af vátryggingastarfsemi var ein sú besta í sögu félagsins og er ánægjulegt að sjá markvissa úrbótavinnu á þessu sviði skila árangri. Aðstæður á fjármálamörkuðum voru hins vegar erfiðar og afkoma af fjármálastarfsemi var undir væntingum. Fjárhagsstaða TM er sem fyrr traust og hækkaði eiginfjárhlutfall á milli ára. Styrkur TM felst í góðu sambandi við viðskiptavini sína og reksturinn framundan býður upp á fjölmörg tækifæri."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×