Handbolti

Sverre: Megum ekkert slaka á

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Ísland mætir Þjóðverjum í Höllinni í kvöld en leikur liðanna hefst klukkan 18.45. Íslandi hefur gengið vel með Þýskaland á síðustu árum en Sverre Jakobsson segir það engu skipta í kvöld.

„Auðvitað ætlum við okkar alltaf að sigra og við erum ekkert hræddir við Þjóðverjana. Okkur hefur gengið vel með þá síðustu ár og það er gott andlega fyrir okkur. Við höfum ekki tapað í fimm leikjum í röð gegn þeim. Þeir eru samt með hörkulið og heimsklassamenn í hverri stöðu. Þetta verður því erfitt og krefjandi verkefni en skemmtilegt. Það er flott að fá svona sterkan andstæðing stuttu fyrir mót," sagði Sverre.

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari byrjaði að æfa vörnina fyrr í undirbúningnum núna en áður og hann vonast til þess að vörnin smelli strax í kvöld.

Það er mikil pressa á Sverre og Ingimundi Ingimundarsyni enda þarf vörnin að vera í lagi ef árangur á að nást.

„Við vitum vel af þessari pressu. Þegar undirbúningur hófst síðan fannst mér einbeiting leikmanna afar góð og sérstaklega þegar kom að varnarleiknum. Við fengum smá skell síðast en það sýndi okkur að það má ekkert slaka á."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×