Viðskipti innlent

Atvinnuhúsnæðamarkaðurinnn í mikilli lægð - endurspeglar slæmt ástand

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni.
Markaðurinn með atvinnuhúsnæði virðist enn vera í mikilli lægð samkvæmt morgunkorni Íslandsbanka.

Í febrúar síðastliðnum var þinglýst 89 kaupsamningum og afsölum með atvinnuhúsnæði sem er nánast sami fjöldi og var þinglýst í þessum mánuði í fyrra.

Ef litið er til síðustu sex mánaða þá hefur að meðaltali verið þinglýst 99 kaupsamningum og afsölum með atvinnuhúsnæði í mánuði hverjum samanborið við 118 á sama tíma fyrir ári og 134 er farið er aftur til þessa tímabils 2007-2008.

Þessi markaður nær því ekki að vera hálfdrættingur á við það sem hann var áður en kreppan skall á. Kemur þetta fram í gögnum sem Þjóðskrá Íslands birti í gær.

Öllu meiri samdráttur hefur verið á markaði með atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu en utan þess.

Þannig er meðalfjöldi þinglýstra kaupsamninga og afsala með atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu 62% færri á síðustu sex mánuðum en hann var á sama tímabili 2007 - 2008 en 44% færri ef litið er til landsbyggðarinnar.

Á móti var þenslan einnig mun meiri á þessum markaði á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni í aðdraganda kreppunnar.

Talið er að samdráttur á markaði með atvinnuhúsnæði endurspegli efnahagsumhverfi íslenskra fyrirtækja sem hefur verið bágborið svo ekki sé meira sagt á undanförnum misserum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×