Viðskipti innlent

Ekki skýr teikn á lofti um að hagvöxtur sé hafinn

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar um þróun landsframleiðslunnar má segja að útlit sé fyrir að kreppan hafi náð hámarki á síðasta ári, en ekki eru þó enn skýr teikn á lofti um að vöxtur sé hafinn að nýju í hagkerfinu.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um nýjar tölur Hagstofunnar um að verg landsframleiðsla (VLF) hafi dregist saman um 3,5% að raungildi á árinu 2010. Þetta er annað árið í röð sem samdráttur mælist í VLF, en hann nam 6,9% árið 2009. Samanlagt hefur því VLF dregist saman um rétt rúm 10% frá árinu 2008 og var landsframleiðslan í fyrra lítið eitt meiri að raungildi en árið 2005. Sé miðað við VLF á mann erum við komin aftur til ársins 2004.

„Niðurstaðan er í samræmi við spá okkar frá í fyrrahaust, sem hljóðaði upp á 3,1% samdrátt á árinu 2010. Nýlegar spár gerðu ráð fyrir samdrætti á bilinu 2,7 - 3,7% og var Seðlabankinn þar bjartsýnastur en ASÍ svartsýnast," segir í Morgunkorninu.

Einkaneysla var nánast óbreytt í fyrra milli ára eftir 15,6% samdrátt á árinu 2009 og 7,9% samdrátt árið 2008. Einkaneyslan árið 2010 var því u.þ.b. 22% minni en árið 2007, og var hún lítið eitt hærri að raungildi en árið 2003. Aðrir helstu liðir þjóðarútgjalda drógust talsvert saman árið 2010, samneysla um 3,2% og fjárfesting um 8,1%. Atvinnuvegafjárfesting jókst þó um tæpt 1% í fyrra, en á móti skrapp fjárfesting í íbúðarhúsnæði saman um 17% og fjárfesting hins opinbera minnkaði um 22% á tímabilinu. Útflutningur vöru og þjónustu jókst um 1,1% á þessu tímabili en innflutningur óx um 3,9%.

Hlutfall einkaneyslu af VLF var 50,8% og hlutfall fjárfestingar af VLF tæp 13% í fyrra. Eru bæði hlutföllin mjög lág í sögulegu samhengi. Athygli vekur að undanfarin 20 ár hefur hagvöxtur hér á landi verið mjög nálægt meðalvexti í OECD ríkjum. Var vöxturinn að jafnaði 2,4% á ári hérlendis en 2,2% í OECD ríkjunum. Vöxturinn á Íslandi var hins vegar talsvert sveiflukenndari en gengur og gerist í iðnríkjunum, enda hagkerfið lítið.

Líkt og við höfum oft bent á áður ber raunar að taka árstíðarleiðréttum tölum um landsframleiðsluna með miklum fyrirvara. Milli ársfjórðunga jókst einkaneysla um 1,6% á síðasta fjórðungi ársins 2010 og fjármunamyndun óx um 14,9% á sama tíma. Miðað við ofangreindar tölur má segja að útlit sé fyrir að kreppan hafi náð hámarki á síðasta ári, en ekki eru þó enn skýr teikn á lofti um að vöxtur sé hafinn að nýju í hagkerfinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×