Viðskipti innlent

Verðbólguvæntingar stjórnenda aukast verulega

Stjórnendur á meðal stærstu fyrirtækja landsins vænta þess nú að verðbólgan á næstu 12 mánuði verði 4,0%. Þetta eru niðurstöður könnunar Capacent Gallup sem Seðlabanki Íslands birtir í Hagvísum bankans fyrir marsmánuð.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þetta sé þetta veruleg aukning frá því síðasta könnun var gerð, sem var í desember síðastliðnum, en þá bjuggust þeir við að árstaktur verðbólgu yrði 2,0% á næstu 12 mánuðum og þá undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Jafnframt er þetta í fyrsta sinn síðan á fjórða ársfjórðungi 2009 sem verðbólguvæntingar stjórnenda aukast frá síðustu könnun.

Þegar könnunin var gerð, sem var á tímabilinu 10. - 17. mars, var aðeins búið að birta vísitölu neysluverðs fyrir febrúarmánuð og nam þá tólf mánaða taktur vísitölunnar 1,9%. Er því um verulegan mun að ræða á milli verðbólgunnar á þeim tíma sem framkvæmd könnunarinnar átti sér stað og þeirrar sem stjórnendur fyrirtækja væntu til eins árs, og í raun hefur munurinn oftar en ekki legið á hinn veginn frá því að mælingar hófust á verðbólguvæntingum.

Það að stjórnendur vænti nú meiri verðbólgu kemur okkur ekki á óvart enda í takti við þá þróun sem við höfum verið að reikna með. Þó er ljóst að þetta er nokkru meiri verðbólga en við og aðrir sem gera opinberar verðbólguspár höfum verið að reikna með. Ekki er ólíklegt að þær miklu hækkanir sem hafa orðið á olíuverði og verði á öðrum hrávörum á alþjóðlegum mörkuðum og hafa leitt þess að verðbólgan hefur aukist víðast hvar erlendis hafi sett sitt mark á sýn stjórnenda nú, enda hafa fréttir þess efnis verið fyrirferðarmiklar í fjölmiðlum landsins sem og erlendis á síðustu mánuðum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×