Viðskipti innlent

Fasteignamarkaðurinn kominn á svipað ról og 2008

Það sem af er ári hefur um 1.350 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu verið þinglýst  sem er rúmlega 74% aukning frá sama tíma í fyrra og um 132% aukning frá sama tíma árið 2009.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um nýjustu tölur Þjóðskrár um fjölda þinglýstra leigusamninga.

Í Morgunkorninu segir að þetta séu lítið eitt færri kaupsamningar en þinglýst var á svipuðu tímabili árið 2008 en þá voru þeir um 1.450 talsins.

Þó er langt í land með að kaupsamningar nái sama fjölda og fyrir árið 2008. Má hér til samanburðar nefna að á árunum 2005 til og með 2007 voru að meðaltali um 3.200 kaupsamningar þinglýstir á umræddu tímabili, eða um 137% fleiri en nú.

Síðan segir að þrátt fyrir að leigusamningar á þessu ári séu færri en undanfarin tvö ár má segja að enn sé ágætis sókn í leiguhúsnæði, sér í lagi miðað við það sem tíðkaðist árin fyrir hrun. Sé litið til ársins 2008 er fjöldi leigusamninga nú rúmlega 80% fleiri en þá og enn meiru munar þegar farið er lengra aftur í tímann.

„Hefur því umfang leigumarkaðar aukist stórlega frá því fyrir hrun. Þó má reikna með að sú þróun sem verið hefur á undanförnum mánuðum, þ.e. að leigusamningum fækki milli ára, haldi áfram næsta kastið samhliða því að kaupsamningum um íbúðarhúsnæði fari fjölgandi líkt og verið hefur á sama tíma,“ segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×