Handbolti

Sjöstrand: Erum ósáttir með dóma undir lokin

Smári Jökull Jónsson í Malmö skrifar
Johan Sjöstrand var svekktur að leik loknum
Johan Sjöstrand var svekktur að leik loknum Mynd / AFP

Johan Sjöstrand var frábær í marki Svía í bronsleiknum gegn Spánverjum þó ekki hafi það dugað til sigurs. Hann varði 15 skot í fyrri hálfleiknum og hefur átt gott mót. Hann var þó gríðarlega svekktur í leikslok enda Svíar nálægt því að ná í verðlaun á heimavelli.

"Við vorum virkilega nálægt þessu. Við fengum möguleika til að komast í þriggja marka forystu á tímabili en fengum tvær brottvísanir á sama tíma og það er auðvitað erfitt að spila fjórir gegn sex. Það eru smáatriðin sem skipta máli enda sést að munurinn er lítill í lokin," sagði Sjöstrand í viðtali að leik loknum.

"Mér fannst við spila vel í fyrri hálfleiknum. Í seinni hálfleiknum náðu þeir svo þriggja marka forystu og við þurftum að hafa mikið fyrir því að minnka það niður. Spánverjar eru auðvitað með mjög sterkt lið og nýttu sér vel það þegar þeir voru fleiri inni á vellinum," bætti Sjöstrand við.

Svíar voru óánægðir með dómgæsluna undir lokin og fengu meðal annars dæmt á sig vafasamt sóknarbrot á mikilvægu augnabliki þegar lítið var eftir.

"Mér fannst það vafasamt, svo ekki sé meira sagt. Það skipti miklu máli á þessu augnabliki í leiknum. Við erum ósáttir með nokkra dóma undir lokin," bætti markvörðurinn knái við.

Sjöstrand var eins og áður segir frábær í leiknum og ef ekki hefði verið fyrir hans góðu frammistöðu hefðu Svíar misst Spánverja fram úr sér í fyrri hálfleiknum.

"Ég er ánægður með minn leik en það skiptir ekki máli, munurinn er eitt mark þeim í vil að lokum. Markvörður þeirra er frábær líka og hann varði vel sömuleiðis. Við getum einhvern tíman glaðst yfir góðum árangri á mótinu en það er erfitt núna því við vildum ná í bronsið," sagði Johan Sjöstrand að lokum en þetta er í fyrsta skipti í langan tíma sem Svíar keppa um verðlaun á stórmóti í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×