Viðskipti innlent

"Við tökum ekki nei fyrir svar"

Undirritun stöðugleikasáttmálans. Vilhjálmur gagnrýnir Jóhönnu hart, en hún segir kröfur SA óbilgjarnar. Gylfi gagnrýnir stjórnvöld fyrir að hafa ekki samráð við vinnandi fólk og efast um sáttaleið SA.
Undirritun stöðugleikasáttmálans. Vilhjálmur gagnrýnir Jóhönnu hart, en hún segir kröfur SA óbilgjarnar. Gylfi gagnrýnir stjórnvöld fyrir að hafa ekki samráð við vinnandi fólk og efast um sáttaleið SA. Mynd/Steán
 „Jóhanna heldur fast við þessa afstöðu sína en hún má vita að við tökum ekki nei fyrir svar,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um afdráttarlausa yfirlýsingu forsætisráðherra í gær um að sáttatillaga samtakanna í sjávarútvegsmálum væri ekki inni í myndinni.

 

SA hafa sett það sem skilyrði í yfirstandandi kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði að niðurstaða fáist um fyrirkomulag sjávarútvegsmála til framtíðar. Ótækt er að mati SA að skrifa undir nýja kjarasamninga fyrr en vitað sé í hvaða umhverfi sjávarútvegurinn mun starfa. Í þeim anda var sáttatillaga kynnt sem að mati SA var talin líkleg til árangurs. Jóhanna sagði hins vegar að „himinn og haf“ væri á milli hugmynda atvinnurekenda, og vísaði þar til LÍÚ, og stjórnvalda.

 

Vilhjálmur vill litlu svara um það hvort afstaða forsætisráðherra hafi sett gerð kjarasamninga í óleysanlegan hnút en spurður um hvort ekki sé mögulegt að setja sjávarútvegsmálin út fyrir sviga er svarið stutt en skýrt: „Nei.“

 

Aðilar vinnumarkaðarins hittust í gær og héldu áfram að ræða kjarasamningana. Afstaða Jóhönnu kom til tals en viðræðurnar snerust um fjölmörg atriði. „Við ákváðum að leyfa helginni að líða,“ segir Vilhjálmur sem hefur sagt að verði Icesave-samkomulaginu hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni í dag verði að endurskoða allar forsendur kjarasamninga upp á nýtt, óháð sjávarútvegsmálunum.

 

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir það liggja fyrir að sjávarútvegsmálið hafi vegið þungt í yfirstandandi viðræðum. „Við hefðum kosið að þetta væri ekki til að flækja málið. Á sama tíma vilja Samtök atvinnulífsins ekki gera kjarasamning til þriggja ára nema sátt sé í sjávarútvegsmálum. Ríkisstjórnin er staðráðin í að breyta sjávarútvegsmálum án samráðs við nokkurn mann. Þetta er ekki gæfulegt,“ segir Gylfi.

 

Gylfi segir að innan ASÍ sé skýr vilji um það að sjávarútvegsmálin verði þróuð áfram í samstarfi og sátt við starfsmenn í greininni. „Við teljum að ríkisstjórnin eigi að hafa slíkt samstarf og samráð við fólkið sem byggir sína lífsafkomu á sjávarútvegi. Það hefur ekki verið gert. Við munum krefjast þess áfram og því verður komið rétta boðleið,“ segir Gylfi.

svavar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×