Viðskipti innlent

Verðbólguvæntingar aukast vegna Icesave

Viðskipti með ríkisskuldabréf síðustu daga þykja endurspegla væntingar fjárfesta vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave.
Viðskipti með ríkisskuldabréf síðustu daga þykja endurspegla væntingar fjárfesta vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave.
Hækkandi ávöxtunarkrafa á óverðtryggð skuldabréf ríkisins er meðal annars talin endurspegla væntingar um aukna verðbólgu ef Icesave-samningarnir verða felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

„Ef svarið á laugardag verður „nei“ eins og síðustu kannanir benda til þá þarf Seðlabankinn að fara að safna forða fyrir eyðimerkurgönguna sem fram undan verður og kaupa gjaldeyri í mun meiri mæli. Það þýðir lægra gengi og meiri verðbólgu,“ segir Friðrik Már Baldursson, forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík.

 

Þegar Seðlabanki Íslands kynnti ákvörðun um stýrivexti í síðasta mánuði sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri það mat bankans að hafnaði þjóðin nýjum Icesave-samningi tefði það fyrir og torveldaði endurkomu ríkissjóðs á erlenda fjármálamarkaði.

 

„Og þar með mun það hafa þau áhrif að áform um afnám gjaldeyrishafta munu ganga hægar fram heldur en ella,“ sagði hann. Seðlabankinn kynni þá að þurfa að grípa til gjaldeyrisforðans til að greiða niður erlend lán ríkisins sem væru á gjalddaga í lok þessa árs og byrjun þess næsta. „Og þá munum við væntanlega þurfa að auka eitthvað gjaldeyriskaupin, sem þýðir eitthvað lægra gengi og aðeins meiri verðbólgu og aðeins minni kaupmátt,“ sagði hann þá.

 

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir þess vissulega merki að væntinga um afdrif Icesave gæti á skuldabréfamarkaði. Hún áréttar hins vegar að fleiri hlutir en Icesave-kosningin ein ýti undir væntingar um verðbólgu, svo sem hækkandi olíuverð og aukin umsvif á fasteignamarkaði. Þá segir hún einnig gæta áhrifa vegna væntinga markaðsaðila um hvaða áhrif aukið innstreymi aflandskróna, vegna fyrsta skrefs í afnámi gjaldeyrishafta, muni hafa á eignaverð í landinu og þar með verðbólgu.

 

Friðrik Már bendir hins vegar á að þótt mikilvægir áhrifaþættir kunni að auka væntingar um verðbólgu þá hafi hækkun á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfanna orðið síðustu tvo til þrjá daga, en þá tóku kannanir að sýna meirihluta fyrir „nei-i“ í kosningunni um Icesave. „Olíuverðið, fasteignamarkaðurinn og afnám hafta eru allt hlutir sem hafa legið fyrir í lengri eða skemmri tíma og áhrifin hefðu átt að vera komin fram áður,“ segir hann.

 

olikr@frettabladid. is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×