Bakþankar

Kalkúnar og fávísar fjölskyldur

Rithöfundurinn og tölfræðingurinn Nassim Taleb setti fram áleitna dæmisögu í bók sinni The Black Swan frá árinu 2007. Setjum okkur í spor kalkúns sem verið er að ala upp til slátrunar. Á hverjum degi kemur til kalkúnsins vingjarnlegur bóndi sem gefur honum að borða. Með hverjum deginum sem líður verður kalkúnninn öruggari með tilveru sína og traust hans á bóndanum vex. Þar til svo bóndinn kemur einn daginn og slátrar kalkúninum. Hver er lexían? Jú, það er varasamt að búast við því að framtíðin verði eins og fortíðin.

Taleb hefur síðustu ár verið óþreytandi í að bera út þennan boðskap enda margt til í þessu hjá honum. Hann hefur gagnrýnt nýtískuleg félags- og fjármálavísindi fyrir að reiða sig um of á hina svokölluð normaldreifingu eða aðrar skilgreindar líkindadreifingar.

Veruleikinn er nefnilega oft flóknari en líkön segja til um og óvissa um framtíðina meiri en við myndum gjarnan vilja. Þess vegna eiga jafnvel hinir menntuðustu og reyndustu sérfræðingar að sýna auðmýkt í spádómum sínum og viðhorfum um framtíðina.

Til er annað og skylt fyrirbæri sem höfundur hefur séð minna skrifað um. Það er sennilega einfaldast að lýsa því einnig með lítilli dæmisögu. Ímyndum okkur fjölskyldu sem tekur 100 prósenta húsnæðislán fyrir fáránlegu dýru húsnæði, draumahúsnæðinu.

Svo dýru að það er algjörlega útilokað fyrir fjölskylduna að standa við greiðslur af láninu. Viðkvæði fjölskyldunnar er að þetta reddist. Að nokkrum mánuðum liðnum er vandinn strax orðinn ljós og fjölskyldan á leið í gjaldþrot verði ekkert að gert. En viti menn, fjölskyldan vinnur í Víkingalottóinu og getur greitt lánið upp á einu bretti eins og ekkert sé. Hver er lexían hér? Jú, þó að tíminn leiði í ljós framvindu sem annar taldi líklegri en hinn þá er ekki þar með sagt að skoðun hins fyrri hafi verið skynsamlegri. Viðhorfið að þetta reddist var ekki skynsamlegt jafnvel þótt það hafi reddast að lokum.

Það er því ekki alltaf sanngjarnt né sérlega gagnlegt að skipta spádómum í þá sem rættust og þá sem féllu. Hvað þá að skipta skoðunum í réttar og rangar jafnvel þótt tíminn leiði í ljós framvindu sem annar taldi líklegri en hinn. Það sem skiptir öllu meira máli er að skipta spádómum í rökrétta og órökrétta og skoðunum í skynsamlegar og óskynsamlegar. Það er rökstuðningurinn sem skiptir máli. Þótt hlutirnir fari ekki eins og þú taldir líklegast, þá er ekki þar með sagt að þú hafir haft rangt fyrir þér.






×