Viðskipti innlent

Íslenska gámafélagið og Vinnuföt Fyrirtæki ársins

Íslenska gámafélagið. Myndin er úr safni.
Íslenska gámafélagið. Myndin er úr safni.
Íslenska gámafélagið og Vinnuföt eru Fyrirtæki ársins 2011 samkvæmt niðurstöðum könnunar VR, það fyrra í hópi stærri fyrirtækja (50 starfsmenn eða fleiri) en það síðara í hópi minni fyrirtækja (49 starfsmenn eða færri). Hjá báðum fyrirtækjunum er það helst starfsandi og stolt af vinnustaðnum sem nefnt er til sögunnar og einnig sjálfstæði í starfi.

Þetta er annað árið í röð sem Íslenska gámafélagið nýtur þessa eftirsótta heiðurs. Nýherji er það fyrirtæki í hópi stærri fyrirtækja sem bætti sig mest á milli ára og er nú í 17. sæti. Í hópi minni fyrirtækja er Dynjandi hástökkvarinn og stekkur upp í 56. sæti.

Þetta er í fimmtánda skipti sem VR velur Fyrirtæki ársins og hefur könnunin fest sig í sessi sem sá mælikvarði sem helst er horft til þegar aðbúnaður og starfsánægja er metinn. Fjölmörg fyrirtæki setja sér árlega markmið um að ná ofar á listann.

Ríflega 21 þúsund félagsmenn VR fengu könnunina senda. Til viðbótar fengu ríflega tvö þúsund aðrir starfsmenn í rúmlega 70 fyrirtækjum senda könnun en forsvarsmenn þessara fyrirtækja buðu öllum starfsmönnum þátttöku, óháð því í hvaða stéttarfélagi þeir voru. Eins og síðustu ár þá var könnunin nú gerð í samstarfi við SFR stéttarfélag, sem velur Stofnun ársins. Náði hún því alls til um 44.000 félagsmanna. Þetta er langstærsta vinnumarkaðskönnun sem framkvæmd er hérlendis.

Fyrirtækjum í könnuninni er skipt í tvo hópa, stærri fyrirtæki þar sem starfa 50 eða fleiri starfsmenn og minni fyrirtæki en þar eru starfsmenn 49 eða færri.

Niðurstöðum könnunarinnar er skipt í átta lykilþætti. Þessir þættir eru: trúverðugleiki stjórnenda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd, ánægja og stolt og starfsandi. Hverjum þætti er gefin einkunn á bilinu einn til fimm og saman mynda þær heildareinkunn fyrirtækisins.

Af þáttunum átta er meðaltalið hæst fyrir sveigjanleika vinnu og sjálfstæði í starfi. Meðaleinkunn stærri fyrirtækja er lægri fyrir alla þætti en meðaleinkunn minni fyrirtækja. Almennt er þróunin í neikvæða átt frá því í könnuninni fyrir ári. Mest lækkar ánægjan með launakjör og einnig ánægja og stolt. Aðrir þættir lækka minna eða standa í stað.

Könnunin var gerð í febrúar og mars á þessu ári og sá Capacent um framkvæmd og úrvinnslu. Svarhlutfall var 48% sem er nokkuð lægra en í fyrra en þá var það 54% Um 90% svarenda fengu senda rafræna könnun og var mikill meirihluti svara, eða 98%, rafræn. Svörun á netinu var mun betri en hjá þeim sem svöruðu prentuðum eintökum eða 53%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×