Körfuknattleiksdeild Þórs í Þorlákshöfn hefur gert þriggja ára samstarfssamning við fyrirtækið Icelandic Water Holdings og fyrsti heimaleikur liðsins í úrvalsdeild karla í fjögur og hálft ár verður því spilaður í Icelandic Glacial höllinni.
Icelandic Water Holdings ehf. er átöppunarverksmiðja fyrir vatn í landi Hlíðarenda í Ölfusi og er í eigu Jóns Ólafssonar. Meistaraflokkur Þórs mun leika í búningum með auglýsingu frá fyrirtækinu og íþróttahúsið verður á samningstímanum kallað Icelandic Glacial höllin.
Benedikt Guðmundsson tók við liði Þórs í fyrra og kom þeim upp á sínu fyrsta ári með liðið. Þórsliðið hefur verið á útivelli í fyrstu tveimur umferðunum en fær Snæfell í heimsókn til Þorlákshafnar á föstudagskvöldið.
