Handbolti

Ragnar á leið til æfinga hjá Emsdetten

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ragnar Snær Njálsson.
Ragnar Snær Njálsson.

Handknattleikskappinn Ragnar Snær Njálsson verður líklega ekki áfram í herbúðum þýska C-deildarliðsins Bad Neustadt og ekki er loku fyrir það skotið að hann endi í herbúðum Íslendingaliðsins Emsdetten.

Þar stýrir Patrekur Jóhannesson málum og í liðinu eru þeir Hreiðar Levý Guðmundsson, Sigfús Sigurðsson og Fannar Þór Friðgeirsson.

Ragnar hefur verið í sambandi við Patrek sem hefur boðið honum að koma og æfa með liðinu.

"Ég reikna með að fara til þeirra í næsta mánuði. Það er svo undir minni frammistöðu komið hvort ég fæ samningstilboð," sagði Ragnar við Vísi í dag en tvö önnur lið í Þýskalandi og eitt í Danmörku hafa einnig sýnt honum áhuga.

Ragnar hefur verið ákaflega óheppinn með meiðsli í gegnum tíðina sem hafa aftrað hans framförum. Hann er þó allur að koma til og lítur björtum augum á framtíðina.

"Ég lít svo á að ég sé að fá annað tækifæri til að láta drauma mína rætast. Ég er loksins að nálgast það að geta spilað handbolta af fullum krafti. Ég tel mig vera tilbúinn að taka annað skref upp á við næsta vetur og að fara til Emsdetten yrði klárlega slíkt skref," sagði Ragnar Snær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×