Handbolti

Austurríki vann Portúgal í einvígi sænsku þjálfaranna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronald Schlinger tryggði Austurríki sigurinn.
Ronald Schlinger tryggði Austurríki sigurinn. Mynd/DIENER
Austurríkismenn eru að undirbúa sig fyrir HM í handbolta eins og strákarnir okkar í íslenska landsliðinu en liðin verða saman í riðli í Svíþjóð. Austurríki vann nauman 30-29 sigur á Portúgal í gær en þjóðirnar mætast síðan aftur í kvöld.

Þetta var einvígi tveggja sænskra þjálfara því Magnus Andersson tók við liði Austurríkis af Degi Sigurðssyni og Mats Olsson þjálfar portúgalska landsliðið eins og hann hefur gert undanfarin ár. Þeir félagar léku á sínum tíma saman með sænska landsliðinu, Andersson sem leikstjórnandi og Olsson sem markvörður.

Ronald Schlinger skoraði sigurmark Austurríkis í leiknum en Robert Weber var markahæstur með sjö mörk og Victor Szilagyi skoraði sex mörk. Austurríki var 17-12 yfir í hálfleik en Portúgalir voru búnir að vinna upp forskotið eftir tuttugu mínútur.

„Austurríska liðið er með mjög gott byrjunarlið en það er aðeins spurning um hvort liðið hafi breiddina til þess að eiga eitthvað í bestu liðin. Liðið er samt í góðum höndum hjá Magnusi Andersson," sagði Mats Olsson.

Austurríki náði jafntefli á móti Þjóðverjum og vann fimm marka sigur á íslenska landsliðinu í undankeppni EM og það er ljóst að liðið verður eitt af erfiðustu mótherjum strákanna okkar í riðlinum á HM í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×