Viðskipti innlent

Atvinnuleysið mælist mest meðal erlendra ríkisborgara

Atvinnuleysi meðal útlendinga er töluvert meira en meðal Íslendinga. Á sama tíma komast margir ekki til heimalands síns þar sem þeir eru réttlausir, og velja frekar að dvelja á Íslandi á bótum.

Árið 2007 var atvinnuleysi á meðal útlendinga lægra en Íslendinga. Þegar atvinnuleysið náði hæstu hæðum í mars og apríl 2009 var það fjórtán prósent meðal útlendinga en níu prósent á meðal Íslendinga. Út frá áætlun VMST um fjölda á vinnumarkaði er það nú um 13,5 prósent, en rúm sex prósent meðal Íslendinga.

Árið 2007 voru tuttugu þúsund útlendingar á vinnumarkaði. Tæpur helmingur þeirra var Pólverjar. Árið 2006 voru þrettán Pólverjar á atvinnuleysisskrá en í lok febrúar síðastliðnum voru alls 2.375 erlendir ríkisborgarar án atvinnu, þar af 1.428 Pólverjar, eða 61 prósent þeirra útlendinga sem þá voru á skrá. Af Pólverjum eingöngu var atvinnuleysið 19,5 prósent að meðaltali árið 2010.

Gerður Gestsdóttir, ráðgjafi hjá VMST og áður Alþjóðahúsi, segir það sorglegt hversu margir útlendingar komast ekki heim. „Ef þeir færu hefðu þeir enga framfærslu. Það er því illskárra að hanga hér á bótum, vonlítill um að fá vinnu og við ömurlegar félagslegar aðstæður, en að fara heim og fá ekki neitt."

Félagsvísindastofnun komst að því í janúar að tæpur helmingur allra þeirra sem þáðu mataraðstoð hjá hjálparsamtökum í nóvember voru Pólverjar. Þeir voru nær allir atvinnulausir, eða níu af hverjum tíu. - shá / sjá síðu 12






Fleiri fréttir

Sjá meira


×