Handbolti

DHC Rheinland ekki búið að gefast upp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kai Wandschneider er þjálfari DHC Rheinland.
Kai Wandschneider er þjálfari DHC Rheinland. Nordic Photos / Bongarts

Þrátt fyrir fregnir um yfirvofandi gjaldþrot hefur þýska úrvalsdeildarfélagið DHC Rheinland ekki lagt upp laupana enn.

Liðið er komið í greiðslustöðvun en skiptastjóri liðsins, Dirk Andres, segir öruggt að næstu tveir liðsins muni fara fram.

Hann er auk þess bjartsýnn á að liðið geti jafnvel klárað keppnistímabilið.

„Að minnsta kosti geng ég út frá því að starfseminni verði haldið áfram til loka mars," er haft eftir honum í þýskum fjölmiðlum.

Sigurbergur Sveinsson var á mála hjá DHC Rheinland en gekk til liðs við Hannover-Burgdorf í síðustu viku eftir fregnir bárust af yfirvofandi gjaldþroti félagsins.

DHC Rheinland er í næstsíðasta sæti deildarinnar og vann sjö marka sigur á Melsungen um helgina. Liðið mætir Flensburg á miðvikudaginn og svo Grosswallstadt viku síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×