Handbolti

Myrhol: Það er þriggja milljón manna leynieyja við hliðina á Íslandi

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Bjarte Myrhol skorar hér á móti Íslandi á EM í Austurríki 2010.
Bjarte Myrhol skorar hér á móti Íslandi á EM í Austurríki 2010. Mynd/AFP

Børge Lund er lykilmaður í norska handboltalandsliðinu en hann er líkt og margir aðrir í afar sérstakri stöðu fyrir landsleik Íslands og Noregs á HM í kvöld. Þrír samherjar Lund eru í íslenska liðinu og Guðmundur Guðmundsson þjálfari Íslands er yfirmaður Lund þegar hann mætir í vinnuna hjá þýska liðinu Rhein Neckar Löwen.

Lund segir að Íslendingar séu með afar mikinn sigurvilja sem einkenni alla leikmenn liðsins. „Þeir eru ekki klikkaðir en svolítið sérstakir. Ég held að það sé meðfæddur hæfileiki hjá þeim að vilja spila vörn. Á síðustu 10-15 árum hefur liðið skipað sér í fremstu röð á heimsvísu og það er ekki langt síðan að Ísland var með hæsta hlutfall erlendra leikmanna í Þýskalandi," segir Lund í viðtali við Aftenposten.

Bjarte Myrhol er í sömu stöðu og Lund en hann er samherji þeirra Ólafs Stefánssonar, Guðjóns Vals Sigurðssonar og Róberts Gunnarssonar. Myrhol og Róbert eru í hörkubaráttu um sæti í liðinu sem línumenn og Myrhol segir að Ísland sé með „leynieyju" við hliðina á Íslandi þar sem þeir sæki leikmenn sína.

„Það búa 3 milljónir á þessari leynieyju," sagði Myrhol og er líkt og aðrir afar undrandi á því hve margir góðir handboltamenn hafa komið í gegnum tíðina frá Íslandi. Hann óttast að þjálfarinn Guðmundur Guðmundsson sé búinn að kortleggja leik Norðmanna frá A-Ö.

„Hann er myndbandssérfræðingur og hefur eflaust legið yfir öllum leikjum okkar undanfarna daga," sagði Myrhol.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×