Viðskipti innlent

Um 17.000 lán verða endurútreiknuð hjá Íslandsbanka

Íslandsbanki hefur á síðustu vikum unnið að endurútreikningi húsnæðis- og bílalána, kaupleigusamninga og einkaleigusamninga einstaklinga í erlendum myntum. Þegar yfir lýkur mun bankinn hafa endurútreiknað um 17.000 lán.

Í tilkynningu segir að í þessari viku stefnir bankinn að því að ljúka við endurútreikning á nær tíu þúsund bílalánum af þeim tæplega tólf þúsund lánum sem verða endurreiknuð. Gert er ráð fyrir að síðasti áfangi endurútreiknings bílalána, samtals um 2000 lán, verði birtur viðskiptavinum á næstum fjórum vikum.

Nú þegar hefur Íslandsbanki greitt út um einn og hálfan milljarð króna til viðskiptavina vegna endurútreiknings.

Íslandsbanki hefur samhliða þessu hafið endurútreikning á húsnæðislánum og gert ítarlega úttekt á þeim lánasamningum sem hafa verið algengastir undanfarin ár. Bankinn hefur ákveðið að ganga lengra en breytingar á lögum sem samþykktar voru af Alþingi í desember síðastliðnum segja til um.

Það þýðir að öll erlend lán með veði í íbúðarhúsnæði verða endurreiknuð hjá Íslandsbanka, burt séð frá því hvort um íbúðarhúsnæði til eigin nota er að ræða eða ekki.

Þá býður Íslandsbanki einnig upp á höfuðstólslækkun og fleiri valkosti um vaxtakjör en lögin gera ráð fyrir, m.a. tímabundinn vaxtaafslátt frá óverðtryggðum húsnæðislánakjörum. Breytilegir óverðtryggðir vextir Íslandsbanka með tímabundnum afsláttarkjörum eru nú 3,75%.

Í heild verða um 5000 húsnæðislán endurreiknuð. Nú hafa um eitt þúsund lán verið birt í heimabönkum viðskiptavina okkar.  Stefnt er að því að endurútreikningur allra lána sem teljast til húsnæðislána samkvæmt lögunum verður birtur í heimabönkum viðskiptavina fyrir lok mánaðarins.

Þegar yfirlýkur mun Íslandsbanki hafa endurreiknað samtals um 17.000 lánasamninga viðskiptavina með húsnæðis- og bílalán, kaupleigusamninga og einkaleigusamninga í erlendum myntum.

Þar til endurútreikningar liggja fyrir stendur viðskiptavinum með húsnæðislán áfram til boða að greiða mánaðarlega 5.000 kr. af hverri upphaflegri milljón lánsins. Allar greiðslur verða teknar með inn í endurútreikning lánsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×