Viðskipti innlent

OR þarf 50 milljarða, hækkanir og niðurskurð

Fjárþörf Orkuveitu Reykjavíkur (OR) er áætluð 50 milljarðar króna á árunum 2011-2016 og það bil verður brúað með því að fresta nýfjárfestingum og viðhaldsverkefnum í dreifikerfi, draga enn frekar úr rekstrarkostnaði, selja eignir, hækka fráveitugjald og gjald fyrir heitt vatn. Þá mun OR fá víkjandi lán hjá eigendum sínum þegar í stað og þannig verður komið í veg fyrir sjóðþurrð sem ella stefnir í hjá fyrirtækinu fyrir mitt ár 2011.

Í tilkynningu segir að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og sveitarfélögin sem eiga hafa samþykkt umfangsmikla aðgerðaáætlun til að skjóta tryggari stoðum undir rekstur og starfsemi fyrirtækisins til loka ársins 2016 við þær erfiðu aðstæður sem nú eru á lánamörkuðum.

Aðgerðaáætlunin hefur hlotið samþykki í byggðaráðum Reykjavíkur, Akraness og Borgarbyggðar með fyrirvara um staðfestingu sveitarstjórnanna.

Engar leiðir opnar að erlendu lánsfé

Stjórn og stjórnendur OR kynntu margvíslegar ráðstafanir í ágúst 2010 til að tryggja starfsemi fyrirtækisins. Þær leiddu til uppsagna starfsfólks og fólu í sér hækkun gjaldskrár, rekstrarhagræðingu og sölu eigna sem ekki tilheyra kjarnastarfseminni.

Fyrir lá þá þegar að þessar ráðstafanir myndu ekki skila sér að fullu fyrr en liði á árið 2011 og að OR yrði jafnframt að njóta áfram fyrirgreiðslu á erlendum lánsfjármarkaði. Nú hefur hins vegar komið á daginn að áætlanir um erlenda lánsfjármögnun ganga ekki eftir og fyrirtækinu er um megn að fjármagna sig af eigin rammleik.

Stjórn og stjórnendur Orkuveitunnar kynntu eigendum, sveitarfélögunum þremur, þessa alvarlegu stöðu snemma árs 2011 og óskuðu samstarfs við þá um fjármögnun fyrirtækisins. Aðgerðaáætlunin er afrakstur þess samstarfs og miðar að því að tryggja rekstur fyrirtækisins til frambúðar og að OR geti staðið við skuldbindingar sínar með sem minnstum áhrifum á þjónustu fyrirtækisins.

Slegið verður á frest fjárfestingum í veitukerfum, þar á meðal fráveitukerfum á Akranesi, í Borgarbyggð og í Reykjavík, fyrir um 15 milljarða króna. Önnur fjárfesting verður skorin niður um 1,3 milljarða króna á tímabilinu.

Rekstrarkostnaður verður lækkaður um 5 milljarða króna, bæði launakostnaður og annar kostnaður í starfseminni. Ekki verður ráðið í störf sem losna og reiknað er með að starfsfólki fækki um u.þ.b. 90 til ársloka 2016. Ekki er gert ráð fyrir að grípa til fjöldauppsagna líkt og síðastliðið haust.

Gjaldskrárhækkanir

Fráveitugjald verður hækkað um 45% og gjaldskrá fyrir heitt vatn um 8% 1. maí 2011. Gert er ráð fyrir að tekjur OR aukist um 6,1 milljarð króna til ársloka 2016 vegna hækkunar fráveitugjalds og um 1,9 milljarða króna á sama tímabili vegna verðhækkunar heita vatnsins.

Útgjöld fjölskyldu í íbúð af algengri stærð aukast um tæplega 1.500 krónur á mánuði, þar af um 1.000 krónur vegna hækkunar fráveitugjalds og tæplega 500 krónur vegna verðhækkunar hitaveitu.

Ástæða gjaldskrárhækkunar er sú að afkoma þjónustunnar er óviðunandi en ráðist hefur verið í miklar fjárfestingar í fráveitu og hitaveitu á undanförnum árum.

Ákveðið er að OR selji eignir sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi fyrirtækisins fyrir 10 milljarða króna á árunum 2011-2016. Nokkrar eignir eru þegar seldar gegn verði í samræmi við væntingar. Áformað er að selja meðal annars fasteign að Bæjarhálsi 1 og eignarhluta í fyrirtækjum.

OR fær lán frá eigendum sínum, alls 12 milljarða króna, sem þeir skipta sín á milli í samræmi við eignarhluti sína í fyrirtækinu.* Lán að upphæð 8 milljarðar króna verður veitt í apríl á þessu ári og 4 milljarðar króna árið 2013. Lánin eru til 15 ára á bestu kjörum Lánasjóðs sveitarfélaga og afborganalaus fyrstu 5 árin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×