Viðskipti innlent

OR skilaði tæplega 14 milljarða hagnaði í fyrra

Orkuveita Reykjavíkur (OR) skilaði hagnaði upp á tæpa 14 milljarða kr. í fyrra. Þetta er mun betri niðurstaða en árið áður þegar tap upp á rúma 2,5 milljarða var á starfseminni.

Ársreikningur samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur (OR) fyrir árið 2010 var samþykktur á fundi stjórnar í dag. Hvað hagnaðinn varðar má taka fram að á blaðamannafundi sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri OR að þar væri að mestu um gengismun að ræða en ekki raunvrulegan hagnað.

Í tilkynningu segir að stjórn OR hefur ákveðið, í samstarfi við eigendur fyrirtækisins, að grípa til aðgerða til að tryggja fjármögnun þess. Tilefni þeirra er sá lausafjárskortur sem blasti við í rekstri OR. Við honum er brugðist með samdrætti og frestun fjárfestinga, hagræðingu, sölu eigna, hækkun gjaldskrár og víkjandi lánum frá eigendum fyrirtækisins. Með aðgerðunum er fjárþörf OR á árabilinu 2011-2016 brúuð. Send er út sérstök tilkynning um aðgerðirnar.

„Orkuveita Reykjavíkur þarf að breyta áherslum í rekstri og einbeita sér að kjarnahlutverki sínu, veitustarfseminni. Sú erfiða fjárhagsstaða sem fyrirtækið er í er til marks um þörfina á breytingum," segir Bjarni Bjarnason, forstjóri OR í tilkynningunni.

Helstu niðurstöður ársins 2010


Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur skilaði 13,7 milljarða króna hagnaði árið 2010 samanborið við 2,5 milljarða króna tap á árinu 2009.

Rekstrartekjur ársins námu tæpum 28 milljörðum króna en voru 26 milljarðar króna árið áður.

Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 10,7 milljarða króna á árinu, en voru neikvæðir um 8,8 milljarða króna árið 2009.

Heildareignir þann 31. desember 2010 voru 286,5 milljarðar króna en voru 281,5 milljarðar króna 31. desember 2009.

Eigið fé þann 31. desember 2010 var 52,8 milljarðar króna en var 40,7 milljarðar króna 31. desember 2009.

Heildarskuldir fyrirtækisins þann 31. desember 2010 voru 233,7 milljarðar króna en voru 240,9 milljarðar króna í árslok 2009.

Eiginfjárhlutfall var 18,4% þann 31. desember 2010 en var 14,4% í árslok 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×