Viðskipti innlent

AGS svartsýnni á þróun atvinnuleysis en ASÍ og Hagstofan

Í nýrri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem birt var í gær reiknar sjóðurinn með svipaðri þróun og fram hefur komið í spám ASÍ og Hagstofunnar. Sjóðurinn er þó svartsýnni á þróun atvinnuleysis en bæði ASÍ og Hagstofan.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandbanka. Þar segir að AGS telur að landsframleiðsla muni að meðaltali vaxa um 4,4% í ríkjum heims í ár og svo um 4,5% á næsta ári. Telur sjóðurinn því horfurnar í heild sinni góðar og að efnahagsbatinn hafi styrkst, en þó getur hátt atvinnuleysisstig, sér í lagi í þróuðum ríkjum, og þróun á hrávöruverði sett strik í reikninginn. Reiknar AGS með að hagvöxtur verði að meðaltali um 2,4% í ár og 2,6% á næsta ári í þróaða hluta heimsins.

Sýn AGS á hagþróun á Íslandi á árinu og því næsta liggur á svipuðum slóðum og nýlegar spár Hagstofunnar og hagdeildar Alþýðusambands Íslands (ASÍ.). Þannig reiknar sjóðurinn með að landsframleiðsla muni vaxa um 2,3% í ár og 2,9% á næsta ári sem er það sama og Hagstofan spáir. Spá ASÍ hljóðar upp á 2,5% vöxt í ár og 2,1% á næsta ári. Jafnframt hefur spá hans lítið breyst frá því í janúar þegar hann reiknaði með 2,0% og 3,0% hagvexti á þessum árum, en á þeim tíma var reiknað með að samdrátturinn í fyrra hefði verið minni en nýjustu tölur Hagstofunnar gáfu til kynna, eða um 3,0% á móti 3,5%.

Hvað verðbólgu varðar þá hefur AGS hækkað spá sína aðeins frá janúarspánni. Spáir sjóðurinn nú að verðbólgan verði að meðaltali um 2,6% á þessu og næsta ári, sem er lítið eitt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Í janúar hafði AGS reiknað með 2,4%-2,5% verðbólgu á þessu og næsta ári. Í samanburði við aðrar nýlegar spár er sýn AGS á verðbólguhorfur svipaðar og Hagstofunnar, sem reiknar með 2,6% verðbólgu í ár og 2,5% á næsta ári. ASÍ reiknar með 2,2% verðbólgu í ár en 3,0% á því næsta. Eins og oftast er raunin reiknar sjóðurinn með að verðbólgan verði meiri hér á landi en í flestum öðrum þróuðum ríkjum þar sem sjóðurinn reiknar með 2,2% verðbólgu að jafnaði í ár og 1,7% á næsta ári.

AGS er svartsýnni núna á ástandið á vinnumarkaðinum hér á landi en hann var í janúar og þá einkum á næsta ár. Spáir sjóðurinn nú að atvinnuleysi verði að meðaltali 7,5% í ár sem er það sama og hann reiknaði með í janúar. Á hinn bóginn reiknar hann nú með meira atvinnuleysi á næsta ári en hann hafði reiknað með í janúar, eða um 6,5% á móti 5,8%. Er hann þar með nokkuð svartsýnni en bæði Hagstofan og ASÍ á ástandið á vinnumarkaðinum hér á landi. Spá Hagstofunnar hljóðaði upp á 7,3% atvinnuleysi í ár og 6,1% á því næsta og spá ASÍ upp á  7,4% atvinnuleysi í ár og 6,1% á því næsta.

Í samanburði við önnur iðnríki reiknar hann með að atvinnuleysi hér á landi verði minna að jafnaði en annars staðar. Þannig reiknar hann með að atvinnuleysi í iðnríkjum heims verði 9,2% í ár og 8,9% á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×