Handbolti

Guðmundur: Aldrei styttri undirbúningur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari segir að íslenska landsliðið hafi aldrei fengið jafn stuttan undirbúningstíma fyrir stórmót í handbolta og nú.

Landsliðið kom saman til æfinga í gær, degi síðar en flest önnur lið. Guðmundur vonast til að hvíldin hafi reynst leikmönnum vel.

„Hvíldin um helgina var frábær og ég vona að leikmenn hafi náð að hlaða batteríin vel þó svo að hvíldin hafi ekki verið löng," sagði Guðmundur.

Landsliðið æfir saman alla vikuna hér á landi og mætir svo Þýskalandi í tveimur æfingaleikjum, á föstudag og laugardag.

„Undirbúningurinn hefur aldrei verið svona stuttur og ekki hægt að koma fyrir meira en tveimur æfingaleikjum með góðu móti. Þetta kemur þó jafnt niður á öllum liðum en við verðum engu að síður að nýta tímann vel."

„Það þarf að slípa liðið saman bæði í vörn og sókn og keyra upp í þann hraða sem við höfum verið að spila á."

Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan en þar ræðir Guðmundur meðal annars um riðil Íslands á HM í Svíþjóð sem hefst í næstu viku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×