Viðskipti innlent

Breytingar á kvótakerfinu gætu veikt bankana

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Már Guðmundsson er í þann mund að kynna skýrsluna. Mynd/ Pjetur
Már Guðmundsson er í þann mund að kynna skýrsluna. Mynd/ Pjetur
Breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu gætu veikt sjávarútvegsfyrirtæki og þar með rýrt lánasöfn viðskiptabankanna. Þetta kemur fram í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika, sem seðlabankastjóri er í þann mund að kynna.

Í skýrslunni segir að útlán viðskiptabankanna nemi um 1700 milljörðum króna, en stærstur hluti eigna þeirra séu útlán. Samkvæmt skýrslunni námu lán viðskiptabankanna til fyrirtækja um 56% af heildarútlánum á síðasta ári, 25% voru til heimila og um 5% til erlendra aðila.

Í skýrslunni segir að af fyrirtækjalánum hafi tæpur helmingur lánanna verið til þjónustufyrirtækja og um fjórðungur til sjávarútvegsfyrirtækja. Helmingur útlána bankanna var gengisbundinn en sá hluti hefur lækkað hratt síðustu misseri, meðal annars í takt við dóma sem gengið hafa um ólögmæti gengistryggðra lána.

Seðlabankinn segir að talsverð áhætta tengist þó ennþá lánum í erlendri mynt og hætta sé á að gæðum þeirra muni eitthvað hraka á næstu misserum. Nægi þar að nefna óvisu um lögmæti gengistryggðra lánasamninga við fyrirtæki og hugsanlegar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem gætu veikt sjávarútvegsfyrirtæki og þar með rýrt verðgildi viðskiptabankanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×