Viðskipti innlent

Óttast að íbúðalánasjóður verði heildsölubanki

Formaður Hagsmunasamtaka heimilanna óttast að gera eigi Íbúðalánasjóð að heildsölubanka til að útvega bönkunum lánsfé. Velferðarráðherra segir það ekki standa til, hann hyggist berjast fyrir því að hlutverk sjóðsins verði ekki skert.

Stjórnvöld skipuðu húsnæðismálahóp í nóvember sem skilaði af sér nýverið skýrslu - nokkuð hefur verið um hana rætt en lítið um þennan kafla sem fjallar um hlutverk ríkisins á húsnæðislánamarkaði. Þar er óljóst hver framtíð Íbúðalánasjóðs á að vera. Andrea Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, segir að svo virðist sem sjóðurinn eigi að vera eins konar heildsölubanki fyrir bankana en tryggja þó þeim sem hafa lægri laun lán á góðum kjörum.

Það þýði einfaldlega, segir Andrea að dýrari yrði fyrir almenning að taka húsnæðislán. Óvissuna um framtíð Íbúðalánasjóðs má rekja til þess þegar bankarnir hugðust bola sjóðnum út af markaði fyrir hrun og kærðu sjóðinn til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA. Í haust þurfa stjórnvöld svo að svara ESA því hvernig þau hyggjast breyta sjóðnum svo hann samrýmist reglum EFTA.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir það markmið stjórnvalda að Íbúðalánasjóður gegni áfram aðalhlutverki á húsnæðislánamarkaði.

Andrea furðar sig einnig á að neytendur hafi engan fulltrúa átt í hópnum – eins og t.d. fjármálafyrirtækin. „Ég ætla ekki að dæma um hvernig menn skilgreina hver er neytandi í þessu samfélagi," segir Guðbjartur en bætir því að engin óska hafi komið frá þessum samtökum um að bætast í hópinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×