Viðskipti innlent

Fresta birtingu á áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna

Birtingu á áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna hefur verið frestað fram til 25. mars n.k. Þetta kemur fram í tilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Til stóð að birta þessa áætlun í dag, föstudag.

Tilkynningin hljóðar svo: „Undanfarið hefur sérstakur stýrihópur, sem í eiga sæti efnahags- og viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins, haft forystu um mótun áætlunar um afnám gjaldeyrishafta.

Stýrihópurinn hefur unnið náið með sérfræðingum ráðuneyta og stofnana. Stefnt hafði verið að því að tekin yrði afstaða til tillagna stýrihópsins í ríkisstjórn í dag 11. mars og að í kjölfarið yrði áætlunin birt opinberlega.

Enn er nokkur vinna framundan til þess að stýrihópurinn geti lokið tillögugerð sinni til ríkisstjórnarinnar. Það er því óhjákvæmilegt að fresta afgreiðslu áætlunarinnar, en fyrirhugað er að ljúka vinnu stýrihópsins á næstu tveimur vikum. Verður þá unnt að taka afstöðu til áætlunarinnar í ríkisstjórn 25. mars og kynna hana opinberlega sama dag."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×