Viðskipti innlent

Sýningin er mikilvægur hluti af markaðsstarfi

Hluti af markaðsstarfi HB Granda er að sækja stórar sjávarútvegssýningar í sumar.fréttablaðið/valli
Hluti af markaðsstarfi HB Granda er að sækja stórar sjávarútvegssýningar í sumar.fréttablaðið/valli fréttablaðið/valli
HB Grandi hyggst taka þátt í sjávarútvegssýningunni European Seafood Exposition (ESE) sem haldin verður í Brussel í Belgíu í maí, samhliða sýningunni Seafood Processing Europe (SPE). HB Grandi hefur tekið þátt í ESE-sýningunni frá árinu 2005 og verður þetta í sjöunda skiptið sem starfsemi og afurðir félagsins verða kynntar á þessum vettvangi.

Búist er við því að gestir frá meira en 150 þjóðlöndum sæki sýningarnar heim. Þær eru jafnan vettvangur alls hins besta og framsæknasta sem sjávarútvegsfyrirtæki heimsins og fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn hafa upp á að bjóða. Í ár taka rúmlega 700 fyrirtæki þátt í ESE-sýningunni og sýnendur á SPE-sýningunni, sem er vettvangur véla- og tækjaframleiðenda, eru rúmlega 200 talsins frá 22 löndum.

Að sögn Svavars Svavarssonar, markaðsstjóra HB Granda, hefur þátttaka í sýningunni í Brussel verið stór og vaxandi liður í markaðsstarfi félagsins.

„Sjávarútvegssýningin í Brussel er mikilvægasta sýning sinnar tegundar og sú langstærsta sem haldin er í heiminum í dag. Reynsla okkar af þátttöku í ESE-sýningunni er mjög góð og við verðum nú með sjöunda árið í röð,“ segir Svavar, en til marks um áhersluna sem félagið leggur á þessa sýningu má nefna að alls verða fimmtán starfsmenn HB Granda á sýningarbásnum í Brussel.- shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×