Viðskipti innlent

Hagnaður RARIK 1,8 milljarðar í fyrra

Rekstrarhagnaður af starfsemi RARIK fyrir fjármagnsliði  á árinu 2010 var 1.787 milljónir króna sem um 3% aukning frá fyrra ári og í samræmi við áætlanir.

Þetta kemur fram í tilkynningu um uppgjörið. Þar segir að vegna styrkingar krónunnar var hagnaður ársins mun meiri en 2009 sem rekja má til verulegra breytinga á fjármagnsliðum, en niðurstaða fjármagnsliða var jákvæð um 56 milljónir króna, þrátt fyrir að vaxtaberandi skuldir félagsins hafi verið 15,7 milljarðar króna í árslok 2010. Áhrif gengisbreytinga voru jákvæð um 833 milljónir kr.

Rekstrartekjur hækkuðu um rúm 11% frá árinu 2009 og voru 9,7 milljarðar króna, en rekstrargjöld hækkuðu um rúm 13% og voru 7,9 milljarðar króna.

Fjármagnsgjöld á árinu 2010 voru eins og áður segir jákvæð um 56 milljónir króna sem má að stórum hluta rekja til styrkingar krónunnar, bæði hvað varðar erlenda lánasamninga og afleiðusamninga, en einnig vegna lágra vaxta á erlendum lánum. Í áætlunum ársins var ekki gert ráð fyrir breytingu á gengi krónunnar.

Handbært fé frá rekstri var 2 milljarðar króna.

Áhrif Landsnets, sem er hlutdeildarfélag RARIK, á afkomu ársins voru jákvæð um 802 milljónir króna.

Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir RARIK í árslok 37 milljarðar króna, heildarskuldir námu 18,7  milljörðum króna, eigið fé var 18,3  milljarðar króna og eiginfjárhlutfall því 49,5%.

Í tilkynningunni segir að horfur í rekstri RARIK á árinu 2011 séu góðar, en afkoman á næstu tímabilum ræðst hins vegar af almennri þróun efnahagsmála, verðlagsþróun og gengi krónunnar. Áætlanir ársins 2011 gera ráð fyrir hagnaði af rekstri félagsins.

Gjaldskrá fyrir dreifingu var hækkuð um áramótin, en skv. áætlunum er ekki gert ráð fyrir hækkunum umfram almennar verðlagsbreytingar. Fyrirtækið hefur þó ekki nýtt sér að fullu tekjuheimildir í raforkulögum við gjaldskrárgerð. Á það einkum við um gjaldskrá í dreifbýli. Vextir erlendra lána hafa verið hagstæðir undanfarin misseri og gert er ráð fyrir að þeir haldist sambærilegir út árið 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×