Viðskipti innlent

Áhættuálag hækkar í Evrópulöndum en lækkar á Íslandi

Skuldatryggingaálagið á íslenska ríkið hefur lækkað undanfarið og er Ísland í raun eina tilfellið um lækkun af öllum ríkjum Vestur Evrópu sem seldar eru skuldatryggingar á.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þannig stóð álagið á Ísland í lok dags í gær í 228 punktum, sem er það lægsta sem það hefur verið frá því í lok júní árið 2008, að álaginu þann 15. febrúar síðastliðnum undanskildum en þá fór það niður í 224 punkta.

Rétt er þó að hafa í huga að verðmyndun á skuldatryggingarálagi á Ísland er lítt virk og viðskipti með þær skuldatryggingar strjál.

Skuldatryggingaálagið á ríki Vestur Evrópu hækkaði að jafnaði í gær úr 189 punktum í 195 punkta samkvæmt göngum úr Bloomberg-gagnaveitunni. Má þessa hækkun einna helst rekja til álagsins á Portúgal sem hækkaði úr 500 punktum í 533 punkta. Er þetta með því hæsta sem álag Portúgals hefur farið upp í, en hæst hefur dagslokagildi þess farið í 555 punkta snemma á þessu ári. Þó hefur það meira en minna verið undir 500 punktum það sem af er ári.

Portúgal er eitt þeirra evruríkja sem hefur staðið í erfiðleikum vegna mikilla skulda ríkisins, og eru jafnframt margir stórir gjalddagar skuldanna á næstu mánuðum. Hefur ríkisstjórnin þar í landi líkt og í mörgum öðrum löndum orðið að skera niður, en nýjustu tillögur hennar þess efnis hafa ekki farið vel í stjórnarandstöðuna þar í landi sem neitar að skrifar undir þær. Er því ljóst af þessu að pólitíska áhættu er víðar að finna en bara hér á landi, enda hefur hún almennt verið að aukast í heiminum á undanförnum misserum.

Fyrir utan skuldatryggingaálagið á Portúgal hækkaði álagið einnig þó nokkuð á Grikkland og svo Írland sem glíma við svipaðar aðstæður. Álagið á fyrrnefnda landið stóð í lok dags í gær í 972 punktum en hið síðarnefnda í 616 punktum og skipa þau enn tvö efstu sætin á lista Vestur Evrópuríkja yfir hæsta skuldatryggingaálagið líkt og undanfarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×