Handbolti

Boldsen: Danir verða heimsmeistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joachim Boldsen, lengst til vinstri, fagnar Evrópumeistaratitlinum með félögum sínum í danska landsliðinu.
Joachim Boldsen, lengst til vinstri, fagnar Evrópumeistaratitlinum með félögum sínum í danska landsliðinu. Mynd/AFP
Joachim Boldsen, fyrrum leikstjórnandi danska landsliðsins, hefur mikla trú á danska liðinu á HM í Svíþjóð og er óhræddur við að spá því að landar hans fari alla leið og verði heimsmeistarar í handbolta í fyrsta sinn í sögunni.

„Við erum það heppnir með riðil að það yrðu mikil vonbrigði ef að við kæmumst ekki í undanúrslitin. Ég hef trú á því að við förum alla leið og verðum heimsmeistarar," sagði Joachim Boldsen sem er félagi Snorra Steins Guðjónssonar og Arnórs Atlasonar hjá dönsku bikarmeisturunum í AG Kaupmannahöfn.

Danir eru í riðli með Króatíu, Serbíu, Rúmeníu, Alsír og Ástralíu og verða síðan með þremur efstu liðunum úr D-riðli þar sem leika Svíþjóð, Pólland, Suður-Kóreu, Slóvakíu, Argentínu og Síle.

„Þetta stendur svolítið og fellur með frammistöðu Mikkel Hansen, sem stjórnar danska sóknarleiknum, og hvort markverðirnir nái að skila sínu besta," sagði Boldsen sem varð Evrópumeistari með danska landsliðinu árið 2008 og vann líka fjögur brons á Hm (2007) og EM (2002, 2004, 2006).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×