Handbolti

Andersson: Austurríki verður á heimavelli í Svíþjóð

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Magnus Andersson verður á heimavelli í Svíþjóð.
Magnus Andersson verður á heimavelli í Svíþjóð.

Austurríkismenn mæta fullir sjálfstrausts á HM í Svíþjóð þar sem liðið ætlar sér ekki að vera neinn farþegi. Austurríki er í riðli með Íslandi en strákarnir okkar eiga harma að hefna gegn Austurríkismönnum eftir slæmt tap gegn liðinu í undankeppni EM.

"Við förum í þetta mót með miklar væntingar. Það er búið að byggja upp sterkt lið hérna á síðustu árum sem er í sífelldri framför. Liðsandinn er gríðarlega góður og liðið er sannfært um að það nái fínum árangri á HM," sagði hinn sænski landsliðsþjálfari Austurríkis, Magnus Andersson.

Hann er þjóðhetja í Svíþjóð enda hluti af gullkynslóð landsliðsins. Andersson segir að það skipti máli að Austurríki muni fá góðan stuðning á mótinu þar sem hann sé Svíi.

"Sænsku áhorfendurnir munu styðja okkur eins og við séum á heimavelli. Ég get lofað því."

Markvörður liðsins, Nikola Marinovic, fór afar illa með Ísland í leiknum á síðasta ári og hann segir liðið þrífast á því að spila gegn sterkum þjóðum.

"Við viljum vinna þjóðir eins og Ísland, Ungverjaland og Noreg. Af hverju ættum við ekki að vinna þessi lið?" sagði Marinovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×