Viðskipti innlent

Norrænt ofurtölvuver skapar tækifæri hérlendis

Norrænt ofurtölvuver sem sett verður upp hérlendis skapar tækifæri. Jafnframt er það viðurkenning á að Ísland sé ákjósanlegur staður fyrir orkufreka tölvuvinnslu.

Þetta kemur fram í tilkynningu um ofurtölvuverið frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þar segir að aðstæður til rannsókna á Íslandi batna til muna á næstunni þegar íslenskir vísindamenn fá aðgang að norrænu ofurtölvuveri sem starfrækt verður hér á landi.

Háskóli Íslands handsalaði í dag samkomulag um rekstur versins til næstu þriggja ára. Háskólinn var meðal þriggja norrænna háskóla sem buðu í rekstur ofurtölvuversins og varð hlutskarpastur. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur stutt verkefnið frá upphafi og kemur að því með fjárframlagi.

Heildarfjárfesting í verkefninu nemur rúmlega einni milljón evra eða um 200 milljónum króna. Að verkefninu standa, auk Háskóla Íslands, þrjár erlendar stofnanir: Danish Center for Scientific Computing, Swedish National Infrastructure for Computing og UNINETT Sigma í Noregi. Þær hafa yfirumsjón með uppbyggingu og rekstri ofurtölvuvera í sínu heimalandi en hafa nú kosið að setja upp sameiginlegt ofurtölvuver hér á landi. Framlag þeirra til verkefnisins er um 750 þúsund evrur, jafnvirði um 120 milljóna króna.

Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára og munu háskólar og rannsóknastofnanir á Norðurlöndum samnýta ofurtölvuverið. Verið hýsir reiknifreka tölvuvinnslu til vísindarannsókna fyrir háskólana.

Þátttaka Íslands í verkefninu felur ótvírætt í sér aukin tækifæri til samstarfs um vísindarannsóknir og nýsköpun og sömuleiðis markaðssetningu Íslands sem ákjósanlegs staðar fyrir orkufreka samhliða tölvuvinnslu. Í umsögn matsnefndar um umsókn Háskóla Íslands er sérstaklega bent á legu landsins, umhverfisvænan orkubúskap og verðlag orkunnar en þessi atriði eru fordæmisgefandi fyrir verkefni af sama toga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×