Viðskipti innlent

S&P setur Ísland á athugunarlista, horfur neikvæðar

Matsfyrirtækið Standard & Poor´s (S&P) hefur sett Ísland á athugunarlista með neikvæðum horfum. Núverandi lánshæfismat Íslands hjá S&P er BBB- eða einu haki frá svokölluðum ruslflokki.

Í nýju áliti sem S&P hefur birt um Ísland á vefsíðu sinni segir að landið hafi verið sett á athugunarlistann í framhaldi af því að Ísland hafnaði í annað sinn, í þjóðaratkvæðagreiðslu, að samþykkja Icesave samninga.

„Við sjáum fram á aukna efnahagslega áhættu fyrir Ísland í tengslum við langt tímabil óvissu þar sem við teljum að Icesave málinu verði vísað til EFTA dómstólsins," segir Eileen Zhang greinandi hjá S&P í álitinu.

Zhang segir að S&P telji að málaferlin hjá EFTA dómstólnum muni standa í ár eða lengur. Að málið dragist svo á langinn hafi í för með sér líkur á að samskipti Íslands við önnur Evrópuríki muni versna og hindra endurreisn efnahagslífsins á Íslandi.

Þá muni deilan einnig koma í veg fyrir að gjaldeyrishöftunum verði aflétt og lengja þann tíma sem tekur Ísland að komast aftur á erlenda lánsfjármarkaði.

Fram kemur í áliti S&P að matfyrirtækið muni halda Íslandi á athugunarlista sínum næstu vikurnar eða þar til S&P hefur framkvæmt nánari greiningu á því hvað höfnun á Icesave samningnum muni hafa í för með sér efnahagslega, fjárhagslega og pólitískt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×