Viðskipti innlent

Spáir því að verðbólgan fari yfir markmið Seðlabankans

Greining Arion banka telur að á næstu mánuðum sé líklegt að ársverðbólgan fari a.m.k. tímabundið yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans. Verðbólgan nái hámarki í júní þegar hún verði 3,6%. Það eru hækkanir á hrávörum erlendis, eins og eldsneyti, sem keyri verðbólguna upp.

Fjallað er um málið í Markaðspunktum greiningarinnar þar sem finna má bráðabirgðaspá um þróun verðbólgunnar á næstu mánuðum.

„Óvissa í spá okkar snýr einna helst að sveiflum á erlendum hrávörumörkuðum,“ segir í Markaðspunktunum. „ Við gerum ekki ráð fyrir að olíuverð hækki mikið meira, a.m.k. í bili, í bráðabirgðaspánni. Gangi spá okkar eftir mun ársverðbólga mælast yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans á næstu mánuðum en í júní mun 12 mánaða verðbólga mælast 3,6%.

Að okkar mati ætti það þó ekki að skapa hættu á snöggri stefnubreytingu af hálfu Seðlabankans. Einkum þar sem við teljum ólíklegt að verðhækkunarspírall myndist hér heima sökum hækkandi hrávöruverðs úti í heimi. Seðlabankinn hefur einmitt ítrekað sagt að hann bregðist ekki við verðhækkunum á erlendum mörkuðum nema þeir sjái merki þess efnis að verðbólgan sé að festa sig í sessi hér heima, en engin merki eru enn um slíkar hækkanir."

Greiningin segir að í þessu samhengi er mikilvægt að skoða hvernig kjarnaverðbólgan hefur verið að þróast, en kjarnaverðbólga sýnir verðbreytingar m.a. án áhrifa eldsneytisverðshækkana. Í dag er ársbreyting kjarnaverðbólgunnar +1,5%.

„Gangi bráðabirgðaspá okkar eftir mun 12 mánaða verbólga mælast 3,6% í júní en kjarnaverðbólgan mælast í kringum 2%,“ segir í Markaðspunktunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×