Viðskipti innlent

Selja hugbúnað til 50 landa í gegnum netið

Íslenski tímaskráningarhugbúnaðurinn TEMPO frá TM Software er nú seldur til um 50 landa, en sala á búnaðinum hefur margfaldast yfir netið fyrstu mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra. Meðal nýrra viðskiptavina má nefna Kodak og Intel í Bandaríkjunum.

Í tilkynningu segir að TEMPO er tímaskráningarkerfi, sem er þróað sem viðbót við JIRA verkbeiðna- og þjónustukerfið frá Atlassian í Ástralíu, sem er einn stærsti söluaðili á þess konar búnaði í heiminum.

Pétur Ágústsson hjá TM Software segir að sú leið að selja TEMPO í gegnum netið hafi gefist gríðarlega vel. "Upphaflega var TEMPO innanhússlausn en eftir að hafa skoðað sambærilegar vörur sáum fljótlega að okkar lausn ætti mikla möguleika í sölu."

Ákvörðun var tekin um að markaðssetja búnaðinn í gegnum netið og með kynningum í samstarfi við Atlassian. "Við byrjuðum árið 2009 og salan fór hægt af stað en í kjölfar þess að við kynntum búnaðinn á Atlassian ráðstefnu árið 2010 fóru hjólin að snúast og salan hefur marfaldast upp frá því."

Fjölmörg fyrirtæki víða um heim hafa tekið búnaðinn í sína þágu, en hann virðist meðal annars hafa náð góðri fótfestu í Bandaríkjunum og víða í Evrópu, svo sem í Þýskalandi. "Þá höfum við náð fótfestu í Ástralíu og vaxandi áhugi er til staðar í Suður-Ameríku. Við höfum þegar lokið við þýska og franska útgáfu af búnaðinum en í farvatninu eru portúgölsk og spænsk útgáfa af TEMPO, sem segir margt um þann áhuga sem er til staðar á þessari lausn," segir Pétur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×