Viðskipti innlent

Tekjur af tölvuleikjum hafa sexfaldast á fjórum árum

Mynd úr EVE Online.
Mynd úr EVE Online.
Mesti vöxtur útflutningstekna í skapandi greinum hér á landi hefur verið í útgáfu tölvuleikja. Heildarverðmæti hefur sexfaldast á árunum 2005 til 2009, úr 1,9 milljörðum króna í 13,2 milljarða. Nær öll velta í útgáfu á tölvuleikjum hér á landi telst til útflutnings.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um hagræn áhrif skapandi greina á Íslandi. Að skýrslunni stóðu dr. Margrét Sigrún Sigurðardóttir, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Tómas Young, verkefnastjóri ÚTÓN. Notuð voru gögn frá Hagstofu Íslands, Fjársýslu ríkisins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri tölvuleikjaframleiðandans CCP, segir þróun í útflutningi tölvuleikja hraðari hér á landi en erlendis, en útflutningur CCP nam 7,5 milljörðum króna árið 2009, sem gerir um 60 prósent af heildarútflutningsverðmæti íslenskra tölvuleikja.

„Þetta hentar Íslendingum vel," segir Hilmar. „Það hefur ekki borið mikið á markaðssetningu í íslensku samfélagi þar sem gert er út á að láta tölvuleiki verða part af útflutningi. En það gerðist og því ber að fagna." Hann bætir við að nú sé orðinn til eins konar sjálfsprottinn klasi af fyrirtækjum sem sinni greininni og slíkt sé ákveðið heilbrigðismerki.

Útflutningstekjur skapandi greina voru um 24 milljarðar árið 2009 eða um 3 prósent af heildarútflutningi þjóðarinnar. Til samanburðar má nefna að tekjur af útflutningi landbúnaðarvara námu um 1,5 prósenti af heildarútflutningstekjum. - sv






Fleiri fréttir

Sjá meira


×