Viðskipti innlent

Frávísun í máli sjóðsfélaga í Sjóði 9

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá dómi máli tíu sjóðsfélaga í Sjóði 9 hjá Glitni.

Krafist var skaðabóta vegna rýrnunar á verðmæti hluta í sjóðnum en stefnendur vildu meina að mat á bréfum í Baugi, Eimskipi og Fl Group hefði ekki verið rétt og að það hafi ekki endurspeglað raunverulegt virði þeirra á síðustu vikunum fyrir bankahrunið 2008. Dómara þótti málatilbúnaður stefnenda hins vegar ekki vera nægilega skýr til þess að hægt væri að taka málið fyrir dóm.

Stefnendum hefði ekki tekist að afmarka og skýra nægilega vel hvert tjón þeirra gæti talist vera. Þá hefði þeim heldur ekki tekist að skýra forsendur þeirrar staðhæfingar að mat sjóðsins á bréfunum hefði ekki endurspeglað raunverulegt virði þeirra. Stefnendum var gert að greiða sakarkostnað að upphæð 350 þúsund króna.

Illugi Gunnarsson alþingismaður sat í stjórn Sjóðs 9 hjá Glitni þegar hrunið dundi yfir. Hann tók sér launalaust leyfi í fyrra þegar tilkynnt var um að sérstakur saksóknari væri að rannsaka peningamarkaðssjóðina og Sjóð 9 þar á meðal. Illugi hefur lýst því yfir að hann snúi ekki til baka á þing fyrr en þeirri rannsókn lýkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×