Viðskipti innlent

Verulega dró úr veltu Kauphallarinnar milli mánaða

Heildarviðskipti með hlutabréf í Kauphöllinni námu rétt tæpum 1,7 milljörðum kr. í apríl eða 94  milljónum kr. á dag að jafnaði.  Þetta er verulega minni viðskipti en í mars þar sem veltan nam tæpum 19 milljörðum kr. eða 817 milljónum kr. á dag.

Þetta kemur fram í yfirliti um viðskiptin frá Kauphöllinni. Heildarviðskipti með skuldabréf námu 167 milljörðum kr. í apríl sem samsvarar 9,3 milljarða veltu á dag.  Til samanburðar nam veltan  8,8 milljörðum kr.  á dag í mars.

„Horfur eru á að fyrirtækjum fari fjölgandi í Kauphöllinni á næstu mánuðum. Með vexti hlutabréfamarkaðar skapast ný tækifæri til fjármögnunar grunnatvinnuveganna á markaði sem getur gefið hagvexti byr undir báða vængi,“ Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar í yfirlitinu.

„Jafnframt er það áleitin spurning hvort ekki geti skapast víðtæk sátt um sjávarútveginn með skráningu sjávarútvegsfyrirtækja á markað og boði til almennings um kaup á hlutafé á sanngjörnum kjörum.“

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var MP banki með mestu hlutdeildina í apríl, 30,6% (5,9% á árinu),  Landsbankinn með 24,0% (68,2% á árinu) og Saga fjárfestingarbanki með 11,4% (4,8% á árinu).

MP Banki var einnig umsvifamestur á skuldabréfamarkaði með 26,7% hlutdeild (27,1% á árinu), Íslandsbanki með 24,8% (23,1% á árinu) og Arion Banki með 15,9% (14,0% á árinu).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×