Viðskipti innlent

Lögmenn með ofurhagnað eftir hrun

Þorbjörn Þórðarson skrifar


Nokkrar lögmannsstofur á höfuðborgarsvæðinu eru orðnar meðal stærstu fyrirtækja á Íslandi út frá hagnaði eftir bankahrunið. Tíu stofur skiluðu saman hagnaði upp á 1,6 milljarða króna. Stöð 2 byggir samantekt sína á grundvelli upplýsinga frá Creditinfo, en fyrirtækið tók saman upplýsingar um stærstu fyrirtækin á Íslandi út frá hagnaði í ársreikningum ársins 2009.



Eftir hrun var ágætis markaður fyrir rukkara, því nóg var af vanskilakröfunum. Og fyrirtækið Lögheimtan ehf. sem starfar undir heitinu Motus, og hét áður Intrum, og er einnig lögfræðiþjónusta, trónir á toppnum yfir hagnað lögfræðistofa með 303 milljónir króna í hagnað. En fyrirtækið sérhæfir sig einmitt í að rukka vanskilakröfur.



Á eftir Motus er BBA legal næststærsta stofan út frá hagnaði með 302 milljónir króna í hagnað á árinu 2009 og í 65. sæti yfir stærstu fyrirtæki landsins. Þar starfar t.d Bjarki Diego, fyrrverandi yfirmaður útlána Kaupþings og fleiri, en stofan sérhæfir sig í ráðgjöf til fyrirtækja. Þar á eftir er Lex í Borgartúni með 291 milljón króna, en fyrirtækið er einnig með mörg stór fyrirtæki á meðal viðskiptavina sinna. Svo kemur Mörkin Lögmannsstofa, vettvangur Gests Jónssonar, Ragnars Hall og fleiri með 193 milljóna króna hagnað. Landslög hagnaðist um 155 milljónir króna og er í 117. sæti yfir stærstu fyrirtæki á Íslandi sé miðað við hagnað. Athygli vekur að Réttur, stofa Ragnars Aðalsteinssonar og félaga, sem er með aðeins þrjá eigendur og er á Klapparstíg, skilar 123 milljóna króna hagnaði, en stofan hefur unnið af krafti fyrir kröfuhafa gömlu bankanna og þá helst þýska banka sem hafa hag af því að hnekkja neyðarlögunum.



Sigurjónsson & Thor ehf., sem er staðsett í Lágmúla og sérhæfir sig í hugverkum og vörumerkjarétti, var með hagnað upp á 77,8 milljónir króna. Juris, stofa Andra Árnasonar, sem er verjandi Geirs H. Haarde, Sigurbjörns Magnússonar, stjórnarformanns Árvakurs og fleiri, hagnaðist um 66,8 milljónir og er í áttunda sæti yfir lögmannsstofur. Þá er Þorsteinn Einarsson hrl., sem starfar með öðrum í gegnum stofuna Forum, með hagnað upp á 63 milljónir króna og Lögmál á Skólavörðustíg með 52 milljóna króna hagnað.

Samtals skiluðu þessar tíu stofur hagnaði upp á 1,6 milljarða króna á árinu 2009. Skoða þarf þetta í því samhengi að rekstur lögmannsstofa er mismunandi upp settur. Sumir eru ekki með sameiginlegan rekstur og reka sitt út frá eigin kennitölum þótt þeir deili vinnuaðstöðu. Það útskýrir t.d að Lögfræðistofa Reykjavíkur, sem er ein stærsta stofa landsins með tvo skilanefndarformenn innan sinna vébanda (Landsbankinn og Kaupþing) og einn formann slitastjórnar (Kaupþing), birtist ekki á þessum lista.

En sagan er ekki öll sögð. Því sérstaka athygli vekur að stærsta lögmannsstofan á Íslandi, miðað við starfsmannafjölda, umfang og starfsstöðvar, Logos við Efstaleiti, birtist ekki á listanum. Ástæðan er einföld, fyrirtækið hefur ekki enn skilað ársreikningi fyrir árið 2009, samkvæmt úttekt Creditinfo. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×