Handbolti

Bielecki og Lijewski koma ekki til AGK

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Karol Bielecki.
Karol Bielecki.
Danska Ekstra Bladet greinir frá því í dag að pólsku skytturnar Karol Bielecki og Krysztof Lijewski muni ekki ganga í raðir danska ofurliðsins AGK í sumar.

Nokkuð er síðan Jesper Nielsen, eigandi AGK, lýsti því yfir að leikmennirnir myndu koma í sumar. Hann verður nú að éta það ofan í sig þar sem leikmennirnir vilja frekar vera áfram í Þýskalandi á lægri launum en þeir myndu fá hjá honum í Kaupmannahöfn.

Bielecki leikur með Rhein-Neckar Löwen og Lijewski er að koma þangað frá Hamburg í sumar. Nielsen var aðaleigandi Löwen en Handknattleikssamband Evrópu hefur meinað honum að eiga tvö félög og mun hann því setja sitt púður í AGK í framtíðinni.

Eins og flestum ætti að vera kunnugt um ætlar Nielsen sér stóra hluti með liðið og stefnan sett á undanúrslit í Meistaradeildinni hið fyrsta. Ekki er víst að það takmark náist án þessara manna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×