Handbolti

Füchse Berlin tryggði sér þriðja sætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander Petersson í leik með Füchse Berlin.
Alexander Petersson í leik með Füchse Berlin. Nordic Photos / Bongarts
Füchse Berlin tryggði sér þátttökurétt í aðalkeppni Meistaradeildar Evrópu í handbolta á næstu leiktíð með góðum útisigri á Magdeburg, 30-24, í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Dagur Sigurðsson hefur náð frábærum árangri með Füchse í vetur en fyrir tímabilið áttu fáir von á því að liðið myndi ná svona langt.

Dagur hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu liðsins og var til að mynda einn fjögurra sem komu til greina sem næsti landsliðsþjálfari Þýskalands.

Jafnræði var með liðunum framan af í dag en Füchse Berlin stakk af þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka og vann að lokum öruggan sigur. Alexander Petersson var frábær í dag og skoraði þrjú mörk.

Rhein-Neckar Löwen vann sinn leik í dag en verður að sætta sig við fjórða sætið. Liðið þarf því að taka þátt í forkeppni fyrir Meistaradeildina í haust.

Liðið vann fimm marka útisigur á Lemgo í dag, 36-31, eftir að staðan var jöfn í hálfleik, 17-17.

Róbert Gunnarsson skoraði sex mörk fyrir Löwen, Ólafur Stefánsson fjögur og Guðjón Valur Sigurðsson tvö. Þeir tveir síðastnefndu léku sinn kveðjuleik með félaginu í dag en þeir ganga til liðs við AG Kaupmannahöfn í sumar. Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari er þjálfari Löwen.

Kiel endaði í öðru sæti deildarinnar en liðið vann átta marka sigur á Lübbecke, 36-28, í dag. Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel en Aron Pálmarsson skoraði eitt mark fyrir liðið. Þórir Ólafsson skoraði fjögur fyrir Lübbecke.

Ahlen-Hamm og Friesenheim féllu í B-deildina en Rheinland þarf að taka þátt í umspili um sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Úrslitin í dag:

Göppingen - Grosswallstadt 26-26

- Sverre Jakosson skoraði eitt mark fyrir Grosswallstadt

Friesenheim - Gummersbach 33-39

Ahlen-Hamm - Flensburg 40-34

Lemgo - Rhein-Neckar Löwen 31-36

Balingen - Hamburg 24-33

Magdeburg - Füchse Berlin 24-30

Hannover-Burgdorf - DHC Rheinland 31-23

- Vignir Svavarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Hannover-Burgdorf. Sigurbergur Sveinsson komst ekki á blað og Hannes Jón Jónsson er meiddur.

Kiel - Lübbecke 36-28

Wetzlar - Melsungen (11-10)

Ákveðið var að flauta ekki síðari hálfleikinn á eftir að áhorfandi hneig niður. Kári Kristján Kristjánsson skoraði eitt mark fyrir Wetzlar í fyrri háfleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×