Handbolti

Aron með 4 mörk þegar Kiel komst í bikarúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson
Aron Pálmarsson Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk í fimm marka sigri Kiel á Göppingen, 28-23, í undanúrslitum þýska bikarsins í handbolta sem fram fór í Color Line Arena í Hamburg í dag. Kiel mætir annaðhvort Flensburg eða Rhein-Neckar Löwen í úrslitaleiknum en seinni undanúrslitaleikurinn er nú að hefjast í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Kiel á ekki lengur möguleika á því að vinna þýska meistaratitilinn eða Meistaradeildina og er þetta því eini bikarinn sem félagið getur tekið á þessu tímabili.

Aron fékk ekki mikið að spila hjá Alfreð Gíslasyni, þjálfara Kiel, í fyrri hálfleik en nýtti tækifæri sitt mjög vel þegar hann fékk það í seinni hálfleik.

Kiel var 15-13 yfir í hálfleik en Göppingen jafnaði leikinn í upphafi seinni hálfleiks. Aron skoraði þrjú mörk á fimm mínútna kafla þegar Kiel-liðið breytti stöðunni úr 22-20 í 26-21 og eftir það var ljóst hverjir væru að fara í úrslitaleikinn.

Thierry Omeyer varði frábærlega í marki Kiel en markahæstu leikmenn liðsins voru þeir Christian Zeitz, Filip Jicha og Dominik Klein sem skoruðu allir fimm mörk.

Kiel var að komast í bikarúrslitaleikinn í þrettánda sinn í sögu félagsins en félagið getur á morgun unnið bikarinn í sjöunda sinn og jafnframt í fjórða sinn á síðustu fimm árum. Alfreð þjálfaði Kiel-liðið þegar það varð bikarmeistari fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×