Handbolti

Löwen í undanúrslit eftir ótrúlegan síðari hálfleik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðjón Valur og félagar fagna.
Guðjón Valur og félagar fagna.
Íslendingaliðið Rhein-Neckar Löwen tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu með frábærum útisigri, 26-35, gegn Nikola Karabatic og félögum í Montpellier.

Löwen var ekki í góðri stöðu fyrir leikinn þar sem Montpellier vann fyrri leikinn í Þýskalandi, 27-29. Það blés heldur ekki byrlega fyrir Löwen í hálfleik en þá var staðan 17-15 fyrir franska liðið.

Síðari hálfleikur var aftur á móti stórkostlegur hjá lærisveinum Guðmundar Guðmundssonar sem hreinlega keyrðu yfir Frakkana sem áttu engin svör við stórleik Löwen á báðum endum vallarins. Síðari hálfleikur var sýning hjá Löwen en hálfleikurinn fór 9-20 fyrir Löwen.

Ólafur Stefánsson, Róbert Gunnarsson og Guðjón Valur Sigurðsson léku allir með Löwen og stóðu sig vel.

Fyrr í dag komst Hamburg síðan í undanúrslit eftir 37-37 jafntefli gegn Chekhovskie Medvedi. Það kom ekki að sök því Hamburg vann fyrri leikinn með 14 marka mun.

Á morgun mætast síðan Barcelona og Kiel sem og Flensburg og Ciudad Real.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×