Handbolti

Löwen og Kiel í beinni á netinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Löwen.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Löwen. Mynd/Daníel
Íslendingaliðin Rhein-Neckar Löwen og Kiel verða bæði í eldlínunni í Meistaradeild Evrópu í dag og báðir leikir liðanna sýndir í beinni útendingu á netinu í dag.

Rhein-Neckar Löwen tekur á móti frönsku meisturunum í Montpellier á heimavelli en þetta er fyrri viðureign liðanna í fjórðungsúrslitum Meistaradeildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 15.45.

Klukkan 17.30 mætir Kiel, sem er núverandi Evrópumeistari, liði Barcelona á útivelli. Báðir leikir eru sýndir á vefsíðunni EHFtv.com.

Guðmundur Guðmundsson er þjálfari Löwen og þeir Ólafur Stefánsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Róbert Gunnarsson leika með liðinu. Alfreð Gíslason þjálfari Kiel og Aron Pálmarsson leikur með liðinu.

Bæði undanúrslit og úrslit Meistaradeildarinnar fara fram sömu helgina í Köln í Þýskalandi í næsta mánuði. Ciudad Real og Hamburg eru komin með annan fótinn þangað eftir örugga sigra á andstæðingum sínum í fyrri leikjum sínum í fjórðungsúrslitunum.

Ciudad Real vann Flensburg, 38-24, í Þýskalandi og Hamburg vann rússneska liðið Chekhovskie Medvedi á heimavelli, einnig 38-24.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×