Viðskipti innlent

Stjórnendur Landsbankans sakaðir um að millifæra milljarða í hruninu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgólfur Thor Björgólfsson. Féð átti að hafa ratað til fyrirtækja í eigu Björgólfsfeðga.
Björgólfur Thor Björgólfsson. Féð átti að hafa ratað til fyrirtækja í eigu Björgólfsfeðga.
Stjórnendur Landsbankans millifærðu milljarða króna á reikninga Straums-Burðaráss sama dag og bankinn hrundi. Þetta fullyrðir breska blaðið Sunday Telegraph. Blaðið vísar í bréf frá skilanefndinni máli sínu til stuðnings.

Í bréfinu frá skilanefndinni er fjallað um það hvernig 174 milljónir sterlingspunda, jafnvirði 32 milljarða íslenskra króna, voru teknar út úr bankanum rétt áður en hann var þjóðnýttur. Mestur hluti fjárins var millifærður inn í stofnanir sem Björgólfur Thor Björgólfsson og faðir hans, Björgólfur Guðmundsson, áttu eða stjórnuðu.

Í bréfinu segir „Stjórnarmeðlimir í bankanum og stjórnendur hefðu átt að gera sér grein fyrir því að þann 6. október var bankinn gjaldþrota. Það er niðurstaða okkar að fyrrgreindar millifærslur hafi verið til þess að skerða eignasafn bankans og raskað jafnrétti lánadrottna og þess vegna hafi þær verið ólöglegar".

Sunday Telegraph segir að stór hluti fjárins hafi verið greiddur inn á reikninga Straums, sem var að stórum hluta til í eigu Björgólfs Thors. Í bréfinu sé greint frá því hvernig 47 milljóna sterlinspunda lán til Straums hafi verið veitt eftir að Landsbankinn hrundi þann 6. október 2008. Þótt lánsvilyrði hafi verið fyrir hendi í meira en 18 mánuði áður en bankinn féll hafi það ekki verið fyrr en nokkrum mínútum áður en að Geir Haarde hélt sjónvarpsávarp, þar sem hann tilkynnti um efnahagshrunið að ósk um greiðslu hefði borist.

Sunday Telegraph segir að bréfið, með þessum ásökunum, hafi verið sent frá skilanefndinni til stjórnar Landsbankans í febrúar. Stjórnin hafi neitað ásökununum. Talsmaður Björgólfs Thors hafnar þeim einnig í svari sem sent var Sunday Telegraph.

Rétt er að taka fram að þó að Björgólfur Thor hafi verið einn af stærstu eigendum Landsbankans, í gegnum eignarhaldsfélagið Samson, sat hann hvorki í stjórn bankans, né heldur var hann einn af stjórnendum hans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×