Innlent

Uppskeruhátíð auglýsingagerðamanna

Þorsteinn Guðmundsson vakti athygli í auglýsingum vegna Mottumars.
Þorsteinn Guðmundsson vakti athygli í auglýsingum vegna Mottumars.
Í kvöld fór fram hin árlega afhending íslensku auglýsingaverðlaunanna, Lúðurinn. Auglýsingastofurnar Íslenska, Fíton og Hvíta húsið hlutu flest verðlaun eða þrjá lúðra hver stofa. Næstar komu auglýsingastofurnar HN: Markaðssamskipti og Jónsson & Le'macks með tvenn verðlaun hver.

Lúðurinn er veittur í 16 flokkum þar sem auglýsingar sem skara fram úr á árinu eru verðlaunaðar, en hugmyndin á bakvið auglýsinguna og útfærsla hennar ráða úrslitum.

ENNEMM fékk verðlaun í flokki útvarpsauglýsinga fyrir auglýsinguna „Klappari" sem unnin var fyrir Símann. Vefhönnunarfyrirtækið Skapalón sigraði í flokki vefauglýsinga með vefborðann „Heilabrot námunnar" en Landsbankinn var verkkaupi. Þá hlaut auglýsingastofan Pipar-TBWA lúðurinn fyrir besta viðburðinn, sem var vélsleðastökk sem verslunin Ellingsen stóð fyrir.

Íslenska auglýsingastofan hlaut Áruna, verðlaun sem veitt eru fyrir árangur í kynningu á vöru, fyrir kynningarefni sem unnið var fyrir veitingastaðinn Hamborgarafabrikkuna.

Að auki fékk Íslenska verðlaun fyrir bestu auglýsingaherferðina, Inspired by Iceland, sem unnin fyrir Íslandsstofu. Inspired herferðin fékk einnig lúður í svokölluðum opnum flokki og voru lúðrarnir þá orðnir þrír sem féllu í skaut Íslensku auglýsingastofunnar.

Hvíta húsið átti bestu auglýsinguna í flokknum almannaheillaauglýsingar fyrir aðra miðla. Auglýsingin var gerð fyrir Sameinuðu þjóðirnar en yfirskrift hennar var „Dear world leaders – we are still waiting". Að auki hlaut Hvíta húsið verðlaun fyrir besta markpóstinn, „Skinkubréf" sem var hannaður utan um hluthafaskirteini framleiðslufyrirtækisins Marel og einnig fyrir umhverfisauglýsinguna, „Hey, ostar" sem framleidd var fyrir Mjólkursamsöluna. Alls þrír lúðrar hjá Hvíta húsinu.

Í flokki vörumerkja bar Fíton sigur úr býtum með merkið Íslandsfar sem unnið var fyrir Íslandsstofu. En það voru ekki einu verðlaun Fíton. Auglýsingaherferð fyrir Ölgerðina vegna Polar Beer, sem Fíton vann í samvinnu við Miðstræti, bar sigur úr býtum í vefkosningu á mbl.is. Síðast en ekki síst fékk Fíton verðlaun fyrir besta veggspjaldið sem hannað var í tengslum við þátttöku Íslands í bókamessunni í Frankfurt.

HN Markaðssamskipti sigraði í flokknum almannaheillaauglýsingar fyrir ljósvakamiðla. Auglýsingin var gerð fyrir Krabbameinsfélagið í tengslum við herferðina Mottu mars og var með yfirskriftinni: „Ég þekki Hveragerði eins og punginn á mér". HN Markaðssamskipti hlutu einnig hin eftirsóttu Áru- verðlaun fyrir herferð til kynningar á þjónustu vegna vinnu sinnar við Mottu mars herferðina. En Áran er veitt fyrir herferð sem talin er hafa skilað mestum árangri.

Jónsson & Le'macks fengu tvenn verðlaun, í flokki sjónvarpsauglýsinga fyrir auglýsinguna „Hvar er samkeppnin?" og fyrir bestu dagblaðaauglýsinguna „Eignatengsl", en báðar auglýsingarnar voru unnar fyrir fjarskiptafyrirtækið Alterna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×