Viðskipti innlent

Gagnrýnir sameiningu SpKef og Landsbankans harðlega

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýnir harðlega áform um sameiningu SpKef og Landsbankans, hún hefur óskað eftir fundi í viðskiptanefnd vegna málsins.

Greint var frá því í gær að unnið er nú að því innan Bankasýslu ríkisins að renna SpKef, þ.e Sparisjóðnum í Keflavík, inn í Landsbankann, en Bankasýslan heldur á hlutum ríkisins í báðum fyrirtækjunum.

Þessi áform gagnrýnir Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, harðlega.

„Við höfum endurreist að miklu leyti sambærilegt bankakerfi og var fyrir hrun, það er ennþá sama áhættan og jafnvel í einhverjum tilvikum sömu leikmenn og stefnumörkun stjórnvalda er engin.“

Hún segir samþjöppun í fjármálakerfinu valda aukinni kerfisáhættu sem gerir það að verkum að innistæðutryggingasjóður muni aldrei geta staðið undir þroti eins af stóru bönkunum, þar með gæti bankakerfið endað í sömu ógöngum og áður. Ekki má vaða áfram blint og stefnulaust eins og stjórnvöld hafa verið að gera.

Eygló myndi vilja sjá bankana í mun smærri einingum.

„Ég myndi vilja sjá það með fleiri og minni einingar þar sem það dregur úr kerfisáhættunni og þá eru meiri líkur á því að innistæðutryggingasjóður geti staðið undir falli eins banka ef hann lendir í erfiðleikum.“

Eygló hefur kallar eftir fundi í viðskiptanefnd vegna málsins og óskar eftir að efnahags- og viðskiptaráðherra og fjármálaráðherri mæti á fundinn ásamt forstjóra FME og seðlabankastjóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×