Handbolti

Löwen stálheppið að ná jafntefli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Róbert Gunnarsson og Guðmundur Guðmundsson.
Róbert Gunnarsson og Guðmundur Guðmundsson. Nordic Photos / Bongarts
Rhein-Neckar Löwen og Barcelona skildu í dag jöfn, 38-38, í Meistaradeild Evrópu í handbolta. Löwen spilaði frábærlega í fyrri hálfleik en missti leikinn úr höndunum í þeim síðari.

Leikurinn var æsispennandi og réðst á síðustu sekúndunum. Iker Romero kom Barcelona í fyrsta sinn í leiknum í tveggja marka forystu, 38-36, þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum. Löwen náði þó að jafna metin og hleypa mikilli spennu í leikinn á lokamínútunni.

Hins vegar tókst Börsungum að tapa boltanum þegar um 20 sekúndur voru eftir og Löwen náði einni sókn til viðbótar. Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Löwen, ákvað að setja sjöunda manninn inn á í sóknina og kippa markverðinum út af. Börsungar náðu þó að komast inn í sendingu hjá Löwen og kasta boltanum í autt markið hinum megin á vellinum en einni sekúndu of seint - leikurinn var búinn og lauk því með jafntefli.

Löwen komst í átta marka forystu í fyrri hálfleik, 18-10, en missti það niður í fimm mörk þegar flautað var til hálfleiks. Staðan þá var 22-17. Börsungar mættu öflugir til leiks í síðari hálfleik og náðu að snúa leiknum sér í hag.

Ólafur Stefánsson skoraði tvö mörk í leiknum og Róbert Gunnarsson eitt. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði ekki í leiknum. Markahæstur hjá Löwen var Uwe Gensheimer með fimmtán mörk.

Löwen er þó öruggt með sæti í 16-liða úrslitum keppninnar og er með ellefu stig í öðru sæti A-riðils þegar tvær umferðir eru eftir. Kiel er í efsta sætinu með tólf stig.

Barcelona er nánast öruggt með sæti í 16-liða úrslitunum en baráttan um fjórða sæti riðilsins og það síðasta sem gefur sæti í næstu umferð stendur á milli þriggja neðstu liðanna - Celje Lasko, Chambery og Kielce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×