Handbolti

Öruggur sigur hjá Füchse Berlin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin.
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin. Nordic Photos / Bongarts

Füchse Berlin gefur ekkert eftir í toppbaráttunni í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta en liðið vann öruggan útisigur á Wetzlar í dag, 28-19.

Alexander Petersson lék ekki með Berlin í dag vegna meiðsla en Dagur Sigurðsson, þjálfari liðsins, sagði í samtali við Vísi eftir leikinn í dag að ákveðið hafi verið að taka hann ekki með í leikinn.

„Hann er að drepast í bakinu en við erum að vonast til þess að hann geti spilað með okkur á þriðjudaginn," sagði Dagur.

Kári Kristján Kristjánsson skoraði fimm mörk fyrir Wetzlar í dag en staðan í hálfleik var 16-10, Füchse í vil.

Füchse Berlin er sem fyrr í öðru sæti deildarinnar með 27 stig, þremur á eftir toppliði Hamburg en tveimur meira en Kiel og Rhein-Neckar Löwen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×